Miðvikudagur 5. janúar 2011 - "Bystander effect"

Jæja, þá er blessuð móðir mín farin aftur af landi brott ... og nú kemur við svakaleg vinnutörn.

Sverrir félagi minn var svo ástsamlega almennilegur að bjóðast til að skutla móðurinni út á Arlanda-flugvöll ... og ekki nóg með það, þau hjónin, þ.e. Sverrir og Dana, útveguðu mér líka bíl þegar móðirin kom hingað til Svíþjóðar fyrir áramótin.

Þar að auki eru þau búin að bjóða okkur tvisvar heim um hátíðarnar og akstur báðar leiðir er að sjálfsögðu innifalinn. 

Ég verð nú bara að segja að þetta eru rausnarskapur og liðlegheit í algjörum sérflokki ... svo sannarlega eitthvað fyrir mig til að læra.  

---

Ég hef stundum spáð í það hvað ég er svona almennt séð, ótrúlega slappur í því að bjóða fram aðstoð mína og hjálp eða bara yfirleitt að bjóða fólkið eitthvað ... það er samt ekki að ég vilji það ekki ... ég bara einhvern veginn fatta það ekki.

Oftast finnst mér bara að fólk geti bara beðið ef það vantar eitthvað ... og ansi oft sneiði ég bara framhjá hlutunum, læt eins og ég taki ekki eftir og hugsa með mér að það hljóti bara einhver annar að redda málunum.

Þetta er oft mjög hallærislegt og alveg hrikalega lítið "twist" í þessu ... ef maður spáir í það.

---

Það er til merkilegt félagssálfræðilegt fyrirbæri, sem kallast "bystander effect" og fjallar um þegar fólk bíður ekki fram aðstoð sína þegar einhver er í nauðum staddur.

Í hverri einustu inngangsbók í almennri sálfræði má finna áhrifamikið dæmi um "bystander effect". Fjallar það um þegar ráðist var á Kitty Genovese nærri heimili hennar í Queens í New York-borg. Var þar að verki raðmorðingi og nauðgari, Winston Moseley að nafni. Meira en hálftími leið frá því Moseley fyrst réðst á Genovese og þar til hann var búin að ganga af henni dauðri.

Fjöldi fólks á að hafa orðið vitni að atburðinum en ekkert aðhafst.

---

Einn þáttur sem hefur mjög mikil áhrif á "bystander effect" er fjöldi vitna að tilteknum atburði en það er eins og fólk finni til minni ábyrgðar hjá sjálfu sér að grípa inn í eftir því sem fjöldinn er meiri.

Ábyrgðin einhvern veginn dreifist yfir á alla og hver og einn fær svo lítinn skerf að honum finnst ekki taka því að gera neitt í málunum og hugsar bara að einhver annar hljóti bara að gera eitthvað. 

Mikið svakalega finn ég oft fyrir þessu ...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband