2.1.2011 | 23:49
Sunnudagur 2. janúar 2011 - Nýjar pælingar
Þessi dagur hefur verið miklu líkari hinum hefðbundna nýjársdegi en gærdagurinn.
Í gær þurfti ég nefnilega að verja mestum hluta dagsins í greinarskrif enda er ég algjörlega á lokasprettinum að skila inn vísindagreininni sem ég hef svo oft minnst á hér á þessu bloggi.
---
Í dag var meira verið að spjalla saman, skreppa út og njóta lífsins.
Umræðurnar voru á mjög skemmtilegum nótum. Þær voru um barnauppeldi en ég hef mikið verið að pæla í hvaða áhrif það hefur að börn séu með sérherbergi.
Margir leggja upp úr því að koma börnum sínum tiltölulega fljótt á æviskeiðinu upp á að sofa í sínu eigin herbergi.
Ég hef verið að afla mér upplýsinga um ástæður þessa, s.s. að yngri börn eigi auðveldara að með að tileinka sér slíkar breytingar, það sofi allir betur, börn geti frekar sofnað sjálf o.s.frv.
Út af fyrir sig get ég vel skilið þessi rök ...
... en ég er samt ekki alveg að kaupa þau ...
---
Ég var mörg ár í sveit á mínum yngri árum og hef því kynnst dýrum og atferli þeirra nokkuð vel.
Eitt af því sem er mjög augljóst þegar fylgst er með dýrum er hvað ungviðið leitar alltaf til móður þegar kemur að því hvílast. Það er sama hvort talað sé um kálfa, hvolpa, folöld, kettlinga eða lömb ... þegar kemur að því að hvílast þá leggjast afkvæmin, meðan ung eru, ævinlega eins nálægt mæðrum sínum og þau geta.
Það atferli virðist því með öðrum orðum vera harðvírað í þau frá náttúrunnar hendi ... þarna er öryggið nefnilega mest. Með þessum hætti má auka verulega líkurnar á að komast af í þessum heimi. Þetta er "púra" Darwin-ismi - survival of the fittest ...
Því má spyrja ... gildir ekki það sama um börn?
Ég held að það séu viðurkennd sannindi að ung börn vilja, frá náttúrunnar hendi, vera nálægt foreldrum sínum.
Má þá ekki leiða líkum að því að verið sé að skora þessar grunnþarfir á hólm með því að láta börn sofa í sérherbergi?
Hvaða afleiðingar hefur það?
Sjálfur veit ég það ekki ... en mér finnst stefna bara ekki "meika sens".
---
Ég hef svo tekið þessar pælingar mínar enn lengra og velt fyrir mér hvort þarna sé ekki hreinlega verið að reka fleyg milli fjölskyldumeðlima, því strangt til tekið á sér stað einhvers konar flokkun á fjölskyldumeðlimum; foreldrar í einu herbergi og börn í öðru herbergi.
Þennan fleyg er svo gjarnan haldið áfram að reka t.d. með því að hvetja börnin til að leika sér inni í herberginu sínu og jafnvel loka á eftir sér, gefa þeim tölvu sem höfð er inni í herberginu, nú eða sjónvarp ...
... en með þeim hætti má nokkurn veginn tryggja afar lítil samskipti milli barna og foreldra.
---
Þegar börnin eldast, skilja foreldrarnir svo ekkert í því hvað börnin hafa lítinn áhuga á að vera í kringum þá ... en skýra málið með þeim hætti að "svona sé þetta nú bara og hafi alltaf verið svona".
---
Fyrir nokkrum árum tók ég viðtöl við meira en 200 manns sem voru um áttrætt. Mjög margir sögðu börn sín hafa lítið samband.
Af hverju?
"Það hafa allir svo mikið að gera ... "
En er það málið?
Getur ekki bara verið að í gegnum tíðina hafi verið rekinn fleygur í samskiptin ... og hann skilji fólkið að?
Ég veit það ekki ...
... en allavegana finnst mér rökin fyrir að ung börn sofi í sérherbergi lykta allhressilega af hagsmunum foreldra ... hvað er gott og þægilegt fyrir þá.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.