Fimmtudagur 23. desember 2010 - Þorláksmessa

Jæja ... þá hefur Þorláksmessan runnið sitt skeið á enda hér í Uppsölum.

Árangursríkur dagur og skemmtilegur.

Við Guddan tókum okkur frí frá hefðbundnum störfum og héldum áfram að undirbúa hátíðarnar ...

Undirbúningurinn var eiginlega í tveimur hlutum, allt eftir því hvort Guddan var sofandi eða ekki.

- Þegar hún var sofandi, lagaði ég til, skúraði gólf, skrúbbaði kamarinn og lagaði stíflu í vaskinum.

- Þegar hún var vakandi, sungum við, spiluðum á gítar, dönsuðum og höfðum gaman.

---

Um kaffileytið fórum við svo niður í bæ að hitta Laugu og upplifa smá jólastemmningu.

Það er óhætt að segja að stemmningin hér í bæ sé önnur en á heimaslóðunum, því eftir að hafa skroppið á kaffihús ákváðum við að bregða okkur niður í miðbæ ...

Svona var stemmningin þar ...

 ---

Svo að lokum ... svona af því að Þorláksmessa er sennilega mesti neysludagur ársins ...

Meðfylgjandi mynd er af því sem mér finnst vera táknmynd neyslunnar ...

Þetta er hjól af gerðinni Yosemite og það er hægt að verða sér út um svona hjól með því að reiða fram um 2.500 sænskar krónur eða rúmlega 40.000 íslenskar krónur. Þetta er alveg þrusugott hjól fullyrði ég því við Lauga eigum nefnilega samskonar grip.

En allavegana ...

... ég tók fyrst eftir þessu hjóli í sumar þar sem það stóð, ásamt öðrum hjólum í hjólagrindinni, sem sést á myndinni, glænýtt og glansandi.  

Og síðan þá hef ég fylgst með þessu hjóli.

Af hverju?

Jú, af því þetta hjól er aldrei hreyft ... ég fullyrði það að þetta hjól hefur aldrei verið hreyft síðan því var stillt upp í rekkann sama dag og það var keypt.

Þetta er eitthvert það einmanalegasta hjól sem ég hef nokkru sinni séð ... hjól sem fyrir nokkrum mánuðum sá fyrir sér að þeysa fram og aftur um götu Uppsalaborgar en stendur nú þarna og hefur staðið mánuðum saman eitt og yfirgefið. Þetta er eina hjólið sem ekki hefur verið sett inn í hjólageymsluna ...

... og maður spyr sig: Í hvaða tilgangi var þetta hjól keypt? 

---

Ég er ekki með þessu að álasa eiganda þessa hjóls neitt sérstaklega ... það eru nefnilega allir í þessum "bissness", þ.e. að kaupa hluti sem þeir hafa enga þörf fyrir ...

Hvað hef ég keypt mörg kort í líkamsrækt, sem ég hef svo aldrei notað?

Hvað hef ég keypt mikið af fötum sem ég hef eiginlega aldrei farið í?

Hvað hef ég keypt mikið af bókum sem ég nenni svo ekki að lesa? 

Hvað hef ég keypt mikið af mat sem ég enda svo á að henda í ruslatunnuna? 

Og svo framvegis ... 

---

Ég horfi á þetta hjól í hvert einasta skipti sem ég stíg út fyrir þröskuldinn á byggingunni sem ég bý í ... bara til að minna mig á alla þá hluti sem ég tel mig þurfa að kaupa en hef í raun engin not fyrir ...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband