20.12.2010 | 21:31
Mánudagur 20. desember 2010 - Okkar á milli
Í dag hef ég verið iðinn við kolann og búinn að vinna eins og berserkur ...
... eins og alltaf raunar ...
---
En núna er þó meira við hæfi að birta úrklippu úr 2. tölublaði Æskunnar sem kom út árið 1987. Það er dálkurinn Okkar á milli ...
Þetta er nú ekki amalegt!!
Það er nú alveg merkilegt hvað margt af þessu hefur breyst lítið ... og þó ...
Nafni minn í KISS stendur enn fyrir sínu og er í sérlegu uppáhaldi hjá mér eins og áður. Reikningur myndi halda sínum hlut, held ég ... læt það liggja á milli hluta. Svo finnst mér laugardagar ennþá góðir en mér finnast miðvikudagar líka góðir ... eins og raunar allir dagar vikunnar
(Every day above the ground, is a good day - Florence Klein, móðir Gene Simmons bassaleikara KISS).
Það hefur þó eitthvað kvarnast úr "besta vinahópnum" og aðrir komið í staðinn ... en það er bara eins og gengur og gerist. Annars hef ég alla tíð verið afskaplega lítið fyrir að flokka vini mína í besta, næstbesta o.s.frv. Annaðhvort eru menn vinir mínir eða ekki ... og áhugi á fótbolta er ekki endilega helsti kostur ... frekar að þeir séu svona sæmilega viðræðugóðir, myndi ég segja.
Kláus Augenteiter (sem heitir reyndar Augenthaler) er dottinn af toppnum og Maradona er kominn í staðinn, einfaldlega vegna þess að Maradona er sá besti.
Uppáhaldsleikarinn núna er í fleirtölu núna. John Candy og Chris Farley. Báðir frábærir. Sigurður Sigurjónsson er samt alveg fínn.
Það land sem mig langar helst til heimsækja núna er líka í fleirtölu og heitir Miðausturlönd ... búinn að koma svo oft til Danmerkur ;) . En þegar þetta viðtal var tekið hafði drengurinn aldrei farið út fyrir landsteinana.
Svo er ég búinn að gefa drauminn um atvinnumennsku í fótbolta upp á bátinn ... hann verður sennilega ekki að veruleika úr því sem komið er ... enda áhuginn fremur lítill ;) .
Ég held að ég hljóti að hafa logið að Eðvarði Ingólfssyni (þeim sem tók niður punktana) með háttatímann. Hulda systir heldur því fram að ég hafi alltaf farið að sofa kl. 9 á kvöldin og mér hafi fyrst tekist að halda mér vakandi til kl. 12 á gamlárskvöld þegar ég var 20 ára.
Svona er nú það.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.