6.12.2010 | 22:45
Mánudagur 6. desember 2010 - Að vinna og vera glaður
Enn er verið að vinna í þessari blessuðu rannsóknargrein sem ég er búinn að nefna oftar hér á blogginu en ég kæri mig í raun um.
Það er ekki laust við það að farið sé að örla á þreytu á viðfangsefninu.
Vinnan í dag hefur þó skilað talsverðu, því ég gerði mér grein fyrir, nú undir kvöld að ég hafði gert eina skissu í útreikningum. Fyrir það fyrsta tók það mig töluverðan tíma að átta mig á hvers eðlis villan var og eftir að það hafði tekist þurfti ég að endurskrifa nokkurn hluta greinarinnar.
Þegar þessum rannsóknarefnum er sinnt er víst betra að hafa bæði augun opin og ekki er verra að kveikt sé á einhverjum heilastöðvum. Stundum virðist það þó ganga illa :) .
---
Ég hef verið svo niðursokkinn í þetta viðfangefni mitt að ég hef varla séð eða heyrt í mæðgunum, þó svo að þær hafi verið hér yfir og allt um kring eftir að þær mættu á svæðið nú síðdegis.
Lauga þurfti alveg nauðsynlega að sinna verkefni fyrir skólann í kvöld og því voru ekki önnur úrræði en að setja DVD í tölvuna fyrir Gudduna.
Ég hélt satt að segja að þakið ætlaði af húsinu þegar Guddan heyrði hvert stefndi ... svo mikil var gleðin enda slíkt kostaboð ekki á hverjum mánudegi.
---
Þetta er staðan í dag ...
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.