4.12.2010 | 23:48
Laugardagur 4. desember 2010 - Nýjustu æðin
Það er skollið á nýtt æði hjá dótturinni ...
Í dag fórum við að kaupa jólagjafir og skruppum í verslunarmiðstöðina Gränby Centrum. Eftir að hafa hlaupið út um allar trissur, þá var dóttirin látin setjast í innkaupakerru.
Við erum svo að trilla með innkaupakerruna, þá byrjar blessað barnið að góla "hjálp, hjálp" í allar áttir, líkt og væri verið að gangi í skrokk á henni ... sem var alls ekki verið að gera. Ég hafði bara beygt mig niður að henni og spurt hvað strumpurinn sem hún hélt á væri að gera.
Ég lít snarlega í kringum við til að gá hvort nokkur tæki mark á þessum köllum og bað hana í guðanna bænum um að hætta þessu ósköpum ...
Það var ekki tekið til greina fyrr en löngu seinna.
En skömmu síðar, þegar ég er staddur inn í einni búðinni, heyri ég hvar dóttirin hrópar "hjálp, hjálp" þar sem hún situr í kerrunni fyrir utan búðina í félagsskap móður sinnar. Aftur var tónninn í þessum hrópum eins og einhver væri virkilega í nauðum staddur.
Við heimkomuna skreið stubbur upp í rúm og lagði sig. Eftir rúma tvo tíma mátti heyra hvað eftir annað kallað á hjálp innan úr svefnherberginu, þannig að engu líkara var en rúmið og nálægir hlutir stæðu í ljósum logum ... en hún var sumsé að láta vita að hún væri vöknuð.
Hvaðan þetta er sprottið er mikil gáta.
---
Annars er gaman að segja frá öðru æði sem tröllríður öllu hér í Uppsala nú ... og það eru Strumparnir.
"Stumpa" eins þeir eru kallaðir, "Tartan" galdrakarl og kötturinn "Rander" (sem reyndar hljómar eins og hún sé að tala um Randver frænda sinn í Grundarfirði) eru svo vinsælir núna að sjálf Dóra landkönnuður má hafa sig alla við.
Þessir aðilar, sem um ræðir, fylgja Guddunni hvert á land sem er og þegar boðið er upp á að horfa á DVD, eru "Stumpa" alltaf í fyrsta sæti.
---
Svo eru í lokin tvær myndir af heimasætunni með bleiku lambhúshettuna sem amma á Sauðárkróki prjónaði og sendi á sínum tíma.
Efri myndin er tekin í desember 2010 en sú neðri í desember 2009.
Athugasemdir
Hún er æði þessi skvísa...
Abba (IP-tala skráð) 5.12.2010 kl. 10:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.