28.11.2010 | 22:20
Sunnudagur 28. nóvember 2010 - Glefsur frá helginni
Í morgun ákvað heimasætan að byrja að segja "r" ... bara algjörlega eins og þruma úr heiðskíru lofti.
Við morgunverðarborðið, las hún söguna um Barbapapa þegar "örninn" tók "körfuna" með hundinum og fór með hann hátt upp í fjall. Verður það til þess að afkomendur Barbapapa fara að "bjarga" hundinum.
Eftir lesturinn upphófst slík endursögn af þessari miklu sögu að annað eins hefur varla heyrst fyrr né síðar. Var söguþræðinum á köflum lýst með svo miklum geðshræringum að hann var nánast kallaður yfir borðið ... og nota bene, orðin hér að ofan sem eru innan gæsalappana voru öll sögð með "r-i" ... svolítið bjöguðu sem samt ...
Þannig að það náðist einn áfangi í dag.
---
Annar áfangi náðist þegar farið var niður í bæ til að horfa á árlega flugeldasýningu UNT (Uppsala Nya Tidning) í -12°C frosti ...
Það er nú dálítil stemming fyrir þessari sýningu enda er hún bara hin glæsilegasta. Ólíkt íslenskum flugeldasýningum, þá er þessi afar "civiliseruð", því flugeldunum er skotið upp "í takt" við tónlist. Það er því meira horft í gæðin en magnið.
Það má halda því til haga að fröken Guðrún hafði engan áhuga á flugeldasýningu UNT.
---
Á föstudaginn buðum við Lauga, Sverri, Dönu og Jónda í mat ... og tókst boðið ákaflega vel í alla stað verð ég að segja.
Í gær var svo bætt um betur með því að við Guddan fórum í pössun til Sverris og Jónda. Ástæða þess var að spúsur okkar ásamt fleiri íslenskum kerlingum skruppu í árlega jólaferð Íslendingafélagsins til Stokkhólms ...
... undirskrift ferðarinnar var sú sama og áður þ.e. að börnum og karlkyns mökum er óheimilt að fara með.
---
Svo er ágætt að "slútta" þessu með þessari fínu mynd af margumræddri einkadóttur síðuhaldara ...
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.