25.11.2010 | 21:52
Fimmtudagur 25. nóvember 2010 - Að lesa greinar
Það er allur dagurinn í dag búinn að fara í lesa tvær vísindagreinar sem eru svona undirstöðugreinar í þeim geira umhverfissálfræði sem ég er að fást við.
Þetta eru greinar um með hvaða hætti umhverfið getur haft áhrif á streitulosunarferli hjá fólki.
Báðar greinarnar hef ég lesið gaumgæfilega áður en það var alveg kominn tími á að rifja þær aðeins upp enda ekkert sérstakt léttmeti þar á ferð.
Ég veit nú ekki hvort þetta blogg sé rétti vettvangurinn til að ræða þessa hluti eitthvað nánar.
---
Þessu tengt þó ...
Það var gleðiefni að sjá að Skipulagsstofnun telur að umtalsverð óafturkræf umhverfisáhrif verði ef ráðist verður í álbræðslubrjálæðið á Húsavík.
Einhverjir líta svo á að þar með sé búið að slá þessar framkvæmdir út af borðinu.
Mér er það hulin ráðgáta að menn skuli ekki hafa meira hugmyndaflug þegar kemur að atvinnuuppbyggingu. Af hverju svo oft er einblínt á eitthvað eitt stórt sem á að redda öllu.
Hvað varðar Húsavík og nágrenni þess þá finnst mér alveg stórfurðulegt, já stórfurðulegt að ekki hafi verið horft meira til Tjörneslaganna þegar kemur að því að skapa verkefni. Tjörneslögin eru jarðminjar sem eru algjörlega einstakar í heiminum og mönnum dettur ekkert annað í hug en að reisa 346.000 tonna álbræðslu úti í garði og fórna öllum háhitasvæðum á norðausturhluta landsins til að þessi bilaða hugmynd verði að veruleika.
Það er allavegana alveg ljóst að umhverfissálfræðileg áhrif þessara framkvæmda eru mjög neikvæð.
---
Svo held ég að veturinn sé bara skollinn á hér í Uppsala ... það er búið að snjóa nánast samfleytt í viku ...
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.