24.11.2010 | 23:33
Miðvikudagur 24. nóvember 2010 - Margt í mörgu
Dagurinn 24. nóvember er á margan hátt tímamótadagur ...
Í dag fór ég í minn fyrsta söngtíma síðan í febrúar 2007.
Í dag ákvað ég að fara að æfa fótbolta í fyrsta skipti síðan í janúar 1997.
Þessi dagur árið 2008 var sá síðasti í Sydney-dvöl okkar skötuhjúanna, enda útrásarvíkingar og visvitrir stjórnmálamenn búnir að binda þannig um hnútana að ómögulegt var fyrir okkur að dvelja lengur í Ástralíu vegna kostnaðar.
---
Á tragískari nótum ...
Tveir frábærir tónlistarmenn létust þennan dag árið 1991.
Annar þeirra var Freddie Mercury söngvari Queen. Einn sá allra besti í sínu fagi.
Hinn var Eric Carr trommuleikari KISS á árunum 1980 - 1991. Einn sá allra besti í sínu fagi.
---
Guddan var heima í dag svona rétt til að jafna sig eftir kommurnar sem hún fékk í gær og var í þessu líka feiknastuði.
Annan daginn í röð gerði hún alls ekkert upp á milli foreldra sinna, var eitt sólskinsbros og gaf "fæf" í allar áttir.
Svo er afskaplega gaman að sjá hversu miklar framfarirnar eru nánast á hverjum degi. Sífellt bætast við ný orð, nýjar grettur, ný trix og ný lög.
Hér fyrir neðan er video frá því hún söng svo undurfallega "gulur, rauður, grænn og blár". Þetta átt sér stað þann 18. nóvember sl. og var í fyrsta skiptið sem þetta skemmtilega lag var sungið fyrir okkur foreldrana.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.