21.11.2010 | 22:25
Sunnudagur 21. nóvember 2010 - Að ganga úr rúmi
Í morgun reisti dóttirin sig upp nývöknuð og sagði: "Þarna er mamma, kúturinn í stofunni og pabbi á Íslandi" ... svo mörg voru þau orð ...
Sydney og umræddur kútur sem átti að vera í stofunni að sögn eiganda hans.
---
Ég heyrði af manni í gær ... jafnaldra mínum meira að segja ... sem reiddist svo hroðalega við konuna sína þegar hún ákvað að þau skyldu fá sér konu til að gera hreint heima fyrir.
Hann varð svo æfur af reiði að sama kvöld og hann heyrði þessa tillögu, hann gekk úr rúmi og svaf frammi í stofu.
Mér fannst þetta óneitanlega ansi harðneskjulegar undirtektir, en sjálfur hef ég tvisvar gengið úr rúmi.
Í fyrra skiptið var það vegna þess að Lauga hóstaði og hóstaði alla nóttina. En síðla nætur missti ég gjörsamlega þolinmæðina og hreytti í hana "að það væri andskotans ekkert hægt að sofa fyrir þessum helvítis hósta". Þetta voru nú svolítið kröftug viðbrögð enda getur verið mjög erfitt að hemja hóstaköst. Um morguninn baðst ég afsökunar en atvikið lifir ennþá góðu lífi ...
Seinna skiptið var í Sydney, nánar tiltekið nóttina eftir að við Lauga fórum að hlusta á Dalai Lama (http://murenan.blog.is/blog/murenan/entry/239352/).
Lauga varð sum sé veik eftir fyrirlestur Lama en tók það ekki í mál að ég færi út í apótek að kaupa hita- og verkjastillandi, sagði alltaf að þetta væri að "batna".
Því miður tók ég mark á henni því þetta versnaði bara ... og alla nóttina var hún á stanslausu iði, friðlaus af beinverkjum. Enginn svefnfriður.
Síðla nætur stóð ég upp: "Þú hefðir betur slakað á attitjúdinu í gærkvöldi þegar ég vildi kaupa lyf". Ég svaf frammi í stofu það sem eftir lifði nætur.
Lauga komin undir sæng eftir að hafa hlustað á His Holiness The 14th Dalai Lama of Tibet
En aftur að hinum manninum sem gekk úr rúmi vegna hugmyndar um þvottakonu ...
Ég er nefnilega ennþá að reyna að skilja af hverju hann varð svona reiður. Það var nefnilega ekki eins og hann bæri hitann og þungann af gólfþvotti og tiltekt ...
Ónei ...
Hann snertir nefnilega aldrei á slíku, heldur sér konan hans, já sú sem svaf ein í hjónarúminu þá nóttina, alfarið um þrif á heimilinu?!?
Í mótmælaskyni við þetta ótrúlega sjónarmið, tók ég mig taki í gær ... setti vatn í fötu og tusku í hönd og skúraði og skrúppaði gólfin í íbúðinni hjá okkur ... á fjórum fótum til að það yrði örugglega nægjanlega vel gert ... og það var ekki vanþörf á ...
Og þarna er síðuhaldari á fjórum að þrífa ...
Athugasemdir
það er eins gott að það var tekin mynd af þessum ræstitækni... hfeði annars ekki trúð þessum gjörning... (ég er náttúrulega bara að stríða)
Abba (IP-tala skráð) 24.11.2010 kl. 18:51
Þessi gjörningur er algjörlega dagsannur :)
Páll Jakob Líndal, 24.11.2010 kl. 23:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.