21.10.2010 | 23:33
Fimmtudagur 21. október - Að vinna
"Mamma ... vinna" sagði dóttirin um leið og hún hafði sveipað sænginni um höfuð móður sinnar ...
---
Gæti það verið að blessað barnið sé orðið þreytt á þessari löngu og ströngu vinnutörn foreldranna?!?
Guddan er enn veik ... þ.e. að augnsýkingin herjar enn á hana. Samkvæmt sérfræðingi heimilisins tekur um viku að afgreiða svona sýkingu, þannig að þetta ætti að hafast á næstu dögum.
Núna þráir hún það mest að komast út ... skil það vel ... ;)
---
Það bættist einn fyrirlestur við í dag ... þannig að nú eru fimm fyrirlestrar sem bíða flutnings í 10 daga Íslandsdvöl. Þetta er svona eins og gott tónleikaferðalag.
En þetta verður gaman ... alltaf gaman að halda fyrirlestra ... sérstaklega ef þeir verða til þess að opna augu einhverra fyrir mikilvægi umhverfissálfræðinnar, ekki veitir nú af ...
---
Var í kvöld að skrifa fyrirlestur um umhverfi sjúkrastofnana og tók Borgarspítalann og Landspítalann sem dæmi.
Það hefur verið rekinn spítali á besta stað í Reykjavík, þ.e. í Fossvogi, í meira en 40 ár. Eins og staðan er nú er umhverfis stofnunina rúmlega 4 ha stórt grænt svæði, sem aldrei hefur verið nýtt af neinu viti ... þrátt fyrir að ærin ástæða hefði verið til.
Í einni frægustu rannsókn umhverfissálfræðinnar sem var birt í Science árið 1984 kom í ljós að sjúklingar, sem voru að jafna sig eftir þvagfæraskurðaðgerð, voru degi skemur á spítalanum, kvörtuðu marktækt minna við starfsfólk og notuðu marktækt minna af verkjalyfjum, ef þeir horfðu á trjálund um gluggann á sjúkrastofunni í samanburði við það ef þeir góndu á múrsteinsvegg. Seinnitíma rannsóknir hafa stutt þessa niðurstöðu.
Þegar alltaf er verið að tala um niðurskurð í heilbrigðiskerfinu, af hverju í ósköpunum er ekki spáð í hluti eins og þessa?!!? Af hverju er 4 ha grænt svæði við Borgarspítalann ekki nýtt í þágu sjúklinga og starfsfólks? Það er margbúið að sýna fram á jákvæð sálfræðileg áhrif velhannaðra grænna svæða á fólk.
---
Við þessa vinnu mína rýndi ég aðeins í vinningstillöguna í samkeppninni um nýja "hátæknisjúkrahúsið" ... þar er settur "voðafínn" garður ... það gleymist hinsvegar alveg að huga að því að garðurinn þarf helst að vera aðgengilegur með sæmilegu móti.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.