Fimmtudagur 30. september 2010 - Að gróðursetja jólatré

Þann 10. ágúst sl. skrifaði ég gagnmerkt blogg um sænskt vinnulag ... og nú ætla ég að gera það aftur.

Hér í Uppsala búum við Lauga og Guddan í fjölbýlishúsi sem er á vegum Uppsalahem, en það er fyrirtæki sem á og rekur gífurlega margar fasteignir hér í Uppsala.

Þeir sjá um allt sem viðkemur viðhaldi bæði utan- sem innandyra og standa sig með miklum sóma.  

Um daginn kom barst okkur bréf, þar sem Uppsalahem tilkynnti að úti í garðinum við fjölbýlishúsið okkar yrði í haust komið fyrir einu grenitré.  Þetta tré ætti að koma í stað "afsagaðs jólatrés" hefur verið komið yfir á lóðinni um jólaleytið á hverju ári ... ekki ósvipað Oslóartréinu á Austurvelli.

Þá á sum sé ekki lengur að notast við einnota jólatré heldur gróðursetja varanlegt ... og allt gott um það að segja. 

Í dag var látið verða að því að hola þessu verðandi jólatré niður.

Svona til að vera alveg nákvæmur, þá var verkinu formlega ýtt úr vör í seinnipartinn í gær, þegar geysistór Volvo hjólagrafa mætti á svæðið. 

Og í gærkvöldi mátti sjá að menn höfðu ekki setið auðum höndum því búið var að taka heilar tvær skóflur með gröfunni góðu og keyra uppgröftinn í burtu ... sæmilegt dagsverk það ...

Þegar ég leit út í morgun var allt komið á "fúll-sving" við gróðursetninguna.  Hvorki fleiri né færri en fjórir fullorðnir menn voru mættir í verkið.  Reyndar voru þeir ekki allir að vinna því einn var að tala við íbúa fjölbýlishússins, annar var í símanum og sá þriðji horfði á þann fjórða moka svolítið.  
Stóra Volvo-grafan var ennþá og í hópinn hafði bæst þriggja öxla vörubíll fulllestaður af hágæðamold.

Ég hugsaði með mér að það væri ekkert smáræðistré sem ætti að fara að setja niður ...

... og mig rámaði í jólatréið sem hafði verið þarna úti í vetur ... ekki lægra en 6 metrar ...

Ég hlakkaði til að sjá þetta stóra og stæðilega tré ...

--- 

En þá var mér litið á kandidatinn þar sem hann stóð út undir vegg og beið gróðursetningar ...

... og alveg heilir 2,5 metrar á hæð ... ?!?!

Þetta var sumsé útgerðin til að koma einu 2,5 metra grenitré ofan í jörðina?!?  14 tonna hjólagrafa, fulllestaður vörubíll og fjórir fullorðnir menn ... já, og ekki má gleyma fimmta manninum sem kom æðandi á alveg sérstöku moksturstæki með skúffu.  Í skúffunni var einn áburðarpoki.

 

 Ég velti mikið fyrir mér til hvers þyrfti heilan vörubílsfarm af mold í þetta verk ...

 Svarið við því fékk ég nokkrum klukkutímum síðar ...

... það var auðvitað til að geta borið ofan í hjólförin eftir gröfuna?!?!

Ef þetta er ekki atvinnuskapandi ... keyra alltof stóra og þunga gröfu inn í grasblett til að taka tvær skóflur og þurfa svo að verja mörgum sinnum lengri tíma í að laga spjöllin eftir hana ... 

 

Að verkinu loknu leit þetta svona út ... veglegur ofaníburður og VEGLEGT jólatré!! :D

Stuttu seinna kom Lauga heim ...

"Sástu jólatréið?" spurði ég.

"Já ... en það er skakkt!"

... jæja ... :D 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband