Miðvikudagur 8. september 2010 - Allt og ekkert að gerast

Hér í Uppsala er allt að gerast og ekkert að gerast ...

... málið er nefnilega það að ég er um það bil að landa um 300 þátttakendum fyrir rannsóknina mína.  Mikill áfangi það.

Svo sit ég og rýni í glóðvolg gögnin og þvælist í þeim fram og aftur ... en í raun er ekkert að gerast.

Það tekur alltaf smá tíma að komast í takt við tölfræðileg gögn.  Maður þarf að máta sig við þau, kasta þeim fram og tilbaka, áður en eitthvað fæst af viti.

---

Mér til ánægju sé ég að það smám saman tínast þátttakendur í könnunina hér vinstra megin á síðunni, þ.e.a.s. skeggkönnunina.

Veðmálið um niðurstöðuna er enn í gangi og verður spennandi að sjá hver hún verður.  

Annars hef ég lítið viljað væla að fólki að taka þátt í þessari könnun, enda er alveg nóg að vera búinn að safna um 600 manns; 300 í doktorsverkefnið og 300 í streituskalann.

---

Ef ég lít annað en á naflann á sjálfum mér, þá er mál málanna auðvitað Landeyjahöfn ...

... ekki hægt að segja annað en um stórkostlega framkvæmd sé að ræða.

Siglingamálastjóri kom bara vel út úr viðtalinu í fréttatímanum í kvöld ... sagði að þetta yrði vonandi í lagi þegar náttúran yrði aftur eðlileg.  Aðstæður væru bara búnar að vera svo rosalega langt utan við þann ramma sem reiknað var með ... ?!?

Þetta er nú ekki slæm lógík ...

Stundum ramba ég á bloggið hjá Eiði Guðnasyni fyrrum þingmanni, ráðherra og sendiherra.  Á blogginu háir hann blóðuga baráttu gegn ambögum í fjölmiðlum.

Linkurinn er þessi http://esgesg.blog.is/blog/esgesg/ ef einhver skyldi hafa áhuga.

Mikið hlýtur blessuðum manninum að leiðast ... hlustandi á alla fréttatíma sem hann kemst yfir, lesandi öll dagblöð sem hann finnur, svo og alla vefmiðla til þess eins að geta leiðrétt ambögurnar og nöldrað yfir þeim á blogginu hjá sér.

Ekki það að mér finnst sjálfsagt að gera íslenskunni hátt undir höfði og vernda hana eins og kostur er ... 

... ég er meira bara að spá í iðjuna sem slíkri ... þetta hlýtur að vera mikið starf.

Skyldi hún skila árangri? 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband