23.8.2010 | 21:58
Mánudagur 23. ágúst 2010 - Að spá í uppeldismál og Fúfú afmælisbarn
Guddan hefur verið heldur skapstygg í dag. Hún bæði sló mig utan undir og skallaði mig í kinnina.
Í bæði skiptin tók ég þessu með stóískri ró. Gaf henni þó til kynna með svipbrigðum að ég væri nú ekkert yfir mig ánægður með þessi framlög hennar, en sparaði reiðilestur og skammir, enda efast ég stórlega um að þessi fantabrögð hafi verið af yfirlögðu ráði.
Flestir sem þekkja mig vita að ég tek hlutunum sjaldanast með stóískri ró. Ég hef það orð á mér að vera óþolinmóður, frekur og oft óþarflega harður í horn að taka. Þess vegna kemur þessi stóíska ró í garð dóttur minnar mér, já og fleirum, mjög svo í opna skjöldu.
Allt þar til Guddan kom í þennan heim var ég hlynntur því að börn væru almennilega öguð, kæmust ekki upp með neitt múður og gerðu bara eins og þeim væri sagt hratt og vel.
En nú er öldin önnur. Ég hef gjörsamlega umpólast. Ég kann mjög illa við að verið sé að skamma börn, aga þau til og láta þau hlýða ... að börn séu látin lúta ofríki foreldra sinna, sitja og standa eftir því hvað foreldrunum þóknast, finnst mér slæm "pólisía". Eftir alla þá dobíu af bókum sem ég hef lesið bæði í sálfræði og ekki síður í hvatningarsálfræði, hef ég komist af þeirri niðurstöðu að börn eigi ekkert endilega að hlýða öllu því sem þeim er sagt.
Að mínu mati er eitt mikilvægasta hlutverk foreldra að viðhalda viljanum og áhuganum sem einkennir ung börn. Og það verður ekki gert með því láta þau lúta ströngum aga og vanhugsuðu regluverki.
Frekar en að vera sífellt í hlutverki einhvers uppalanda sem sífellt er að kveða upp úr um hvað megi og hvað ekki, hvernig eigi að haga sér og hvernig ekki, þá tel ég að ég eigi að vera fyrirmynd dóttur minnar.
Og hver er megináherslan í því verkefni?
Jú ... að ég spái í það hvað ég sjálfur er að gera. Að ég leggi áherslu á að sýna Guddunni hvað hún getur gert ... skapa möguleika og ýta undir "kreatifití" ... í stað þess að vera sífellt að segja henni hvað hún á ekki að gera. Ef ég er glaður og hress, þá sér Guddan það og vonandi tekur það upp eftir mér. Ef ég leik við hana, fíflast, dansa, fer í fótbolta í stofunni, kubba, púsla, fer í kollhnís, fer í eltingaleik, raða upp dýrunum o.s.frv., þá eru góðar líkur á því að hún taki upp þá siði.
Kjósi ég hins vegar að vera sífellt að jagast í henni, berja hnefanum í borðið, pirrast af því að hún hellir niður mjólk eða klínir smjöri í hárið á sér, þá er mjög líklegt að hún taki upp þá hegðun og verði pirruð og fúl og lemji hnefanum í borðið.
Komi svo upp sú staða að hagsmunir eða langanir mínar og Guddunar fara svo ekki saman, legg ég mikið upp úr því að díla við hana ... semja um niðurstöðu ... bjóða upp á möguleika, bjóða upp á eitthvað annað sem gæti verið henni þóknanlegt ... og báðir vinna.
Með þessu tel ég að Guddan læri með tímanum að heimurinn er ekki svart/hvítur ... hann er ekki bara svona eða hinsegin. Og af þeim sökum þarf maður að vera sveigjanlegur og tilbúinn að díla. Því fyrr sem maður lærir að díla um hlutina því betra.
Máltækið segir nefnilega að börnin læri það sem fyrir þeim er haft ... ;)
---
Fúfú frændi á afmæli í dag ... er fjögurra ára ...
Hér er mynd af honum ásamt heimasætunni hér á bæ, sem tekin var í júlí sl.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.