1.8.2010 | 22:24
Sunnudagur 1. ágúst 2010 - Íslandsferðin
Jæja, þá erum við komin aftur til Uppsala eftir viðburðaríka Íslandsdvöl.
Maður var varla lentur á landinu fagra þegar við tók massíf törn við vinnu á tveimur aðalskipulögum, þ.e. fyrir Tjörneshrepp og Skorradalshrepp.
Eftir að hafa varið tveimur dögum í þá vinnu var þotið austur á Djúpavog til að hitta þar æðstráðendur. Óhætt að segja sú ferð hafi verið sérlega skemmtileg í alla staði.
Eftir gott þriggja daga stopp fyrir austan var haldið norðurleiðina ... til Akureyrar, þar sem frændur mína tvo, þá Stefán og Valtý, var að finna. Þaðan var haldið yfir á Blönduós og degi varið í margvíslega vinnu.
Þaðan lá leiðin til Sauðárkróks á ættarmót Molastaðaættarinnar. Þar voru margir góðir samankomnir og heppnaðist mótið með miklum ágætum.
Eftir að hafa varið u.þ.b. viku í ferðalög, vinnu og skemmtilegheit víðsvegar um landið, var komið að því að dvelja á sloti fjölskyldunnar í Borgarfirðinum.
Þar var maðurinn alinn í 10 daga, fyrst og fremst við vinnu, enda ærin verkefni þar er að finna. Töluverður fjöldi gesta sá sér fært að mæta á svæðið að heilsa upp á liðið ... sem auðvitað var mjög gaman.
Ofan úr Borgarfirði kom ég svo síðastliðinn föstudag og var þá strax ráðinn í vinnu, nánast það sem eftir lifði Íslandsdvalarinnar.
Í gær var svo flogið aftur út til Svíaríkis.
---
Prógammið hjá mæðgunum var mun einfaldara. Við komuna til Íslands var dvalið í Reykjavík í tvo daga, svo var farið á Sauðárkrók, þar sem amma og afi biðu í ofvæni eftir barnabarninu ... já, og kannski dótturinni líka.
Mæðgurnar mættu á ættarmótið sem áður er getið ... enda eru þær af ættboganum, ólíkt síðuhaldara.
Eftir ættarmótið dvöldu þær áfram á Sauðárkróki en stormuðu suður yfir heiðar eftir um 10 dag dvöl í firðinum fagra. Þá tók við dvöl í öðrum fögrum firði ... Borgarfirði, uns Íslandsdvölin rann sitt skeið á enda.
---
Svona var þetta í mjög grófum dráttum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.