18.5.2010 | 22:05
Þriðjudagur 18. maí 2010
Í dag voru keypt jakkaföt, skyrta og bindi ...
Það var engin geðþóttaákvörðun ... heldur af nauðsyn. Á morgun verður útskriftarveisla og á laugardaginn giftingarveisla.
Gallabuxurnar, þó ágætar séu, duga einfaldlega ekki ...
Myndir af síðuhaldara í múnderingunni munu birtast hér á síðunni ... no worries ;) .
Guddan fór að sjálfsögðu með í búðina. Hjá henni fór mest orka í að skríða inn á milli jakkanna og buxnanna sem hengu á fatahengjum sem voru staðsett út um alla búð.
---
Í kvöld skrapp ég í hjólatúr ... hjólaði rúmlega 20 km. Leiðin lá út í sveit og lengi vel, hafði ég ekki hugmynd um hvar ég var staddur. Regla sem í heiðri var höfð fólst í því að beygja til vinstri hvenær sem tækifæri gafst.
Með þeim hætti tókst mér að rata heim aftur.
---
Bongóblíða í dag ... þarf svo sem ekkert að nefna það neitt meira ...
---
Guðrún fór í 4H Gränby húsdýragarðinn í dag ásamt móður sinni. Að sögn móðurinnar lék dóttirin við hvurn sinn fingur, hljóp á milli dýranna og kallaði hástöfum á þau.
Þegar hún kom heim spurði ég hana hvað hesturinn hefði sagt. "Meee", var svarið.
Eftir frekari spurningar komst ég að því að öll dýrin í húsdýragarðinum höfðu sagt "meeee", nema haninn. Spurningu um hann var ekki sinnt.
---
Annars er mál málanna þessa dagana að klæða sig í skó eða stígvél. Sú stutta skal allt bera skófatnað, hvar og hvenær sem er, innandyra sem utan. Helst vill hún verða í bomsum eða vaðstígvélum.
Græn epli eru í miklu uppáhaldi.
Fóstrurnar á leikskólanum segja hana hlaupa allan daginn, alla daga ... kannski ættu fleiri að taka sér það til fyrirmyndar ... sjá mynd ...
Þessi mynd var tekin í janúar sl. Ástandið hefur lítið batnað síðan þá.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.