17.5.2010 | 22:08
Mánudagur 17. maí 2010 - Að vera ánægður
Rosalega erum við þrenningin fegin að vera ekki í Póllandi núna ... stórflóð og óveður.
Svona getur maður stundum verið heppinn ;) ...
---
Allt gott að frétta héðan ... frábært að það sé komið sumar aftur ... 25°C hiti í dag og sól.
Það er svo auðvelt að venjast þessu :)
---
Undanfarnar vikur hef ég mikið verið að spá í mikilvægi þess að vera ánægður og njóta þess að vera til. Mjög áhugaverð pæling svo ekki sé meira sagt.
Ég hef líka verið að pæla í því að fólki er almennt ekkert kennt að vera ánægt. Það er eins og ánægja með lífið eigi bara að koma af sjálfu sér.
T.d. ef horft er til uppeldis. Flestir foreldrar eru einhvern veginn bara í því að sinna praktískum málum er viðkemur börnum þeirra.
Fæða, klæða, láta þau sofa nóg, láta þau snýta sér, sitja kyrr, vera kurteis, kenna þeim að þekkja hest frá kind o.s.frv.
Skólakerfið er í sömu hugleiðingum. Sitja kyrr, hlusta, rétta um hönd, þylja upp margföldunartöfluna o.s.frv. ...
Minna fer fyrir kennslu í að vera ánægður með sjálfan sig, ánægður með lífið, hafa gaman af því að vera til, njóta þess að læra, vera óhræddur o.s.frv.
Það lítur út fyrir að þessi færni eigi að koma af sjálfu sér ef barn fær nóg að borða, sefur nóg og finnur til öryggis.
Nú er ég ekki að gera lítið úr mikilvægi þessara praktískra hluta. Grunnþörfunum, þörfunum um öryggi og þörfunum fyrir félagsleg samskipti þarf auðvitað að sinna.
Af hverju glímir 95% fólks við brotna sjálfsmynd og minnimáttarkennd? Af hverju leiðist svona mörgum?
Í þjóðfélagi þar sem þessum þörfum er sinnt í langsamlega flestum tilvikum þarf meira að koma til, til að fullur árangur náist. Það þarf að kenna sjálfstraust og ánægju.
---
Ég held að þessar pælingar eigi mjög vel við um hvernig stjórnmálin, sérstaklega í Reykjavík eru að þróast þessa dagana.
Stjórnmálin snúast alltaf bara um praktík, praktík og praktík ... og svo þvaðra menn fram og aftur.
Besti flokkurinn kemur inn með ánægjufaktorinn og vill sinna honum.
Þann 17. maí 2010 er Besti flokkurinn stærsta aflið í Reykjavík ...
Maðurinn er vitsmunavera og þarf meira en bara að láta troða í sig mat og skeina sér.
---
Sú manneskja sem fékk mig út í þessar vangaveltur, var snillingurinn hún Sigurlaug.
Hún sagði við mig fyrir nokkru:
"Sérðu glampann í augunum á Guðrúnu núna?"
"Já" svaraði ég.
"Ég vil viðhalda honum ... ég vil sjá þennan glampa ... það er mitt markmið í uppeldi hennar að þessi glampi verði til staðar."
Mér þótti þetta svo kúl pæling að ég hef ekki stoppað að hugsa um þetta.
Athugasemdir
Konan þín er snillingur og algerlega dásamleg mannvera - það verður ekki af henni skafið! Þú ert heppinn maður. Sakna þess að hafa hana ekki meira á Íslandi.
Knúsaðu hana og Gudduna frá okkur öllum hér á Akureyrinni.
Sigga Dóra, Birgir, Konráð Breki og Bumbu-fröken.
Sigga Dóra og co (IP-tala skráð) 21.5.2010 kl. 10:17
Já algjörlega sammála síðasta ræðumanni. Elska pælingarnar hjá henni :)
kv. Þóra
Þóra (IP-tala skráð) 21.5.2010 kl. 19:15
Þakka góðar athugasemdir.
Já, konan mín er snillingur ... enginn vafi á því, en sjálfsagt að nefna það svona við og við hér á blogginu.
Sigga ... til hamingju með Bumbu-fröken ... snillingurinn hér í Uppsala, var búinn að finna út úr þessu fyrir löngu og meira að segja búinn að tala um það við mig ;) .
Páll Jakob Líndal, 21.5.2010 kl. 20:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.