16.5.2010 | 23:25
Sunnudagur 16. maí 2010 - Póllandsferðin
Eins og áður hefur komið fram á síðunni skruppum við þrenningin til Póllands um síðustu helgi.
Ekki slæm ferð það.
Ég ætla rétt að skikla á stóru ...
---
Við flugum til Kraká, við stuttri viðkomu í Varsjá. Það fyrsta sem blasti við í flugstöðinni í Kraká var þetta.
Myndin minnti óneitanlega á 101 Reykjavík ... og við nánari skoðun kom í ljós að þetta var 101 Reykjavík.
Allt fram á þennan dag hafði ég einhvern veginn haldið að allt væri svart/hvítt í Póllandi. Þar fyndust engir litir. Ég hélt líka að þar væri alltaf þoka og einhvers staðar í þokunni mætti sjá grilla í stór lauflaus tré.
Get staðfest að ekkert af þessu er rétt ... sennilega hefur maður séð einum of margar ljósmyndir úr stríðinu.
Fínt að vera í Kraká ... við skoðuðum gaumgæfilega gamla bæinn sem er á Heimsminjaskrá UNESCO.
Á Rynek Glowny torginu
Á einni merkustu götu Kraká ... Fioranska.
Í Wawel Hill kastalanum
Í elstu götu Krakár - Kanonicza
Svo skoðuðum við gamla gyðingahverfið í Kazimierz ... þar var svona heldur hrörlegt um að litast ... í þetta hverfi náðu nasistarnir í gyðingana á sínum tíma.
Hér er dæmi um herlegheitin ... horft upp götuna Bartosza
Í Póllandi er hægt að fá ýmislegt gott að borða t.d. ís ...
Og svo er Prins Pólóið náttúrulega ættað frá Póllandi ... hér er t.d. græn útgáfa af því ... sem síðuhaldari hefur ekki séð áður.
Skruppum svo í saltnámurnar í Wieliczka. Stærstu saltnámur í heimi ... rúmlega 300 km af göngum. Létum okkur nægja að skoða 3 km. Dýpt 330 metrar. Eru á Heimsminjaskrá UNESCO.
Guddan sló í gegn hjá hópnum, enda hagaði hún sér eins og sönnum heimsborgara sæmir. Gekk meira og minna alla leiðina, kallaði lítið og grét ekkert. Var jafnvel svo áhugasöm að hún tók fram úr leiðsögumanninum og vildi helst fara fram úr öryggisverðinum líka.
Dásamlegt að sjá ... á gervihnattöld ... hvernig Pólverjarnir útbjuggu aðgöngumiðana. Þrír miðar prentaðir á A4 blað og svo blaðið klippt í þrennt með skærum. Útbúa þurfti þrjú sett af miðum ... tók smá tíma að fá afgreiðslu ;) .
Fyrir utan "saltnámuhúsið"
Í kirkjunni sem er á 250 - 300 metra dýpi. Allt þarna er úr saltsteini ... líka ljósakrónurnar.
Elskulegur maður bauðst til að taka mynd af okkur ... Lauga hélt að hann væri prestur, því hann var í fjólublárri skyrtu og hummaði sálma ... gæti vel verið rétt hjá henni.
Svo lá leiðin til Auschwitz og Auschwitz-Birkenau.
Þrúgandi andrúmsloft á þessum stöðum ... óhætt að segja það. Hef tekið ákvörðun um að fara aldrei þangað aftur ...
Óhuggulegast af öllu fannst mér að horfa inn í glerbúr, þar sem voru 2 tonn af hári og sjá svo á öðrum stað afurðirnar sem búnar voru til úr hárinu. Augljóslega vandaðar vörur sem þar voru á ferðinni ... kaupendur sjálfsagt aldrei upplýsir um hvaðan hráefnið kom.
Satt best að segja veit ég ekki hvort nokkrum sæmilega skynsömum manni sé hollt að skoða þessar útrýmingarbúðir ... né heldur að vera að velta sér of mikið upp úr þeim atburðum sem þarna áttu sér stað ...
... þetta er að minnsta kosti reynsla sem situr allkirfilega í mér. Og eins og áður segir ... á þennan stað fer ég aldrei aftur.
Og ég held að ég hendi öllum myndum sem ég tók á þessum stöðum ...
---
Jæja, en að léttara hjali ... ferðin var senn á enda ...
Guddan ákvað að sýna heljarinnar tilþrif á veitingastað síðasta kvöldið og vakti óskipta athygli.
Á eftir hljóp hún í hringi á eftir ljósi sem kastað var á götuna og snerist þar í hringi. Úr ljósinu mátti lesa "Taboo Strip Club" ... góð skilaboð það!!
Annars voru það hestar sem drógu vagna sem vöktu mesta athygli hjá þeirri stuttu. Ef eitthvert vandamál var í gangi mátti alltaf spyrja hana: "Hvar eru hestarnir?"
Öllu veseni var snarlega hætt og spurningunni iðulega svarað með annarri spurningu: "Esta?" og svo rétti hún út hendurnar þannig að lófarnir vísuðu upp og yppti öxlum. Hún hafði með öðrum orðum ekki hugmynd um hvar hestarnir voru ...
Þá gætti einnig þess misskilnings að þegar hún var beðin um að klappa hestunum, þá klappaði hún saman höndum ...
... þannig fékkst hún alls ekki til að klappa hestunum, en klappaði höndunum oft.
Á leiðinni heim til Uppsala, komum við svo við í Varsjá og skoðuðum gamla bæinn. Frábær staður ...
Athugasemdir
Hæ hæ!
Flottar myndir gaman að sjá þær.
Ástarkveðjur til ykkra allra
Steinunn og Gunnar (IP-tala skráð) 17.5.2010 kl. 13:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.