20.2.2010 | 23:24
Laugardagur 20. febrúar 2010
Rétt í þessu voru Svíar að eignast gull- og bronshafa í 30 km skíðagöngu ... þulirnir í sænska sjónvarpinu voru alveg rólegir meðan þeir lýstu æsispennandi lokakafla göngunnar ...
---
Annars er búið að hríða hér í Uppsala í allan dag ... versta veðrið síðan við komum hingað fyrir tæpu ári. Myndi nú samt ekki segja að það væri mjög slæmt, þó að því undanskildu að það er 14°C frost sem fylgir þessum ósköpum. Þetta á að halda áfram á morgun ...
... en þess má geta að það er búið að vera stanslaust frost hérna og snjór á jörðu síðan 15. desember sl. Maður getur því ekki talað um miklar umhleypingar, nema hvað frostið áhrærir. Það sveiflast upp og niður á bilinu -3°C til -25°C. Vanir menn segja að þessi vetur sé ekki dæmigerður ...
---
Við skruppum út í dag og létum dótturina renna sér nokkrar ferðir á snjóþotu. Sjálfsagt hefur hún verið eina barnið í Svíþjóð sem var úti í þessum "veðurham".
Snjóþotuferð undirbúin
Eftir útiveruna var sú stutta orðin mjög þreytt og sofnaði í fyrsta skipti á eldhúsgólfinu, eftir að hafa rétt nýlokið við að sporðrenna kanelsnúð.
Sofnuð á eldhúsgólfinu
Og svo í kvöld vildi ungfrúin endilega komast út á svalir. Hún klæddi sig í útiskóna sína, náði í skó móður sinnar fram í fatahengi og færði henni þá inn í stofu. Svo gekk hún að svaladyrunum og gaf bendingar um að fá að komast út.
Þá var hún sumsé klædd í eina bleyju, bleika samfellu og í klossunum sínum.
Í stuttu máli má segja frá því að um leið og dyrnar út á svalirnar voru opnaðar, snéru Guddan sér við á punktinum og tók strikið aftur inn í stofu ... snarhætt við að fara út á svalir!
Náð í skó fram í fatahengi
---
Sjálfur er ég búinn að vera að glíma við bölvaða hálsbólgu í dag og hef viljað vera sem minnst úti.
Sökum þessarar miklu hvíldar í líkamsræktarátakinu ætla ég að segja að fyrsta líkamsræktarátaki ársins 2010 sé lokið.
Það entist í 40 daga.
Ekki-drekka-kók hefur líka verið í tómu tjóni þessa viku. Ég ætla að segja að fyrsta átakinu í því sé lokið. Það entist í 14 daga.
Það sem gerist næst í þessu að ég mun blása á nýtt átak bæði í líkamsrækt og ekki-kók-drykkju strax og þessi bansetta hálsbólga tekur að minnka :) .
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.