7.2.2010 | 22:39
Sunnudagssamba 7. febrúar 2010 - GHPL 20 mánaða
Sydney Houdini er 20 mánaða í dag ... já, tíminn líður svolítið ... maður man eiginlega ekki hvernig tilveran var áður en hún fæddist, því hún er nú svo stór og mikilvægur hluti í heildarmyndinni ...
Gjörsamlega steingleymdi að taka mynd af henni í dag ... set inn eina frá því í gærkvöldi, þegar afmælisbarn dagsins sofnaði yfir Söngvakeppni Sjónvarpsins ...
Einhverjar kvartanir hafa borist til eyrna síðuhaldara varðandi það hversu oft dóttirin sé skítug í kringum munninn á þeim myndum sem birtast hér á síðunni ... eru jafnvel hugmyndir um að barninu sé aldrei þvegið um andlitið og við foreldranefnurnar látum barnið um stjórna því hvort og hvenær strokið er framan úr því.
Af því tilefni vil ég þakka öllum þeim sem áhyggjur hafa af málinu, því slíkt ber vott um væntumþykju og væntumþykja er falleg.
Ég vil jafnframt fullvissa hina sömu um að áhyggjurnar eru óþarfar. Barninu er þvegið oft á dag í framan og sjálft hefur það afskaplega lítið um það að segja hvort og hvenær því er þvegið.
Hinsvegar finnst mér afskaplega gaman að taka myndir af dótturinni kámugri í kringum munninn og enn skemmtilegra finnst mér að birta þær myndir á þessari bloggsíðu ... ég vona að þetta skýri málið fullkomlega ...
---
Annars var ég rétt í þessu að skríða heim úr sunnudagsboltanum ... fínt að taka svolítið á því þar, þó maður megi nú muna sinn fífil fegurri á vellinum.
Snerpan og úthaldið er svona 20% miðað við það sem það var þegar best lét fyrir 15 - 20 árum. En það skiptir nú litlu máli ... atvinnumannaferlinn verður líklega enginn úr því sem komið er ...
---
Mér var boðið í flugferð í morgun. Karvel félagi minn hringdi upp úr kl. 10 í morgun. Við héldum áleiðis til Eskilstuna ... um 100 km sunnan við Uppsala.
Eftir stórgóðan bíltúr í glæsilegu veðri, kom í ljós að nokkuð lágskýjað var yfir flugvellinum ... og vafi á að hægt væri að fara í túrinn góða.
Fyrir því voru tvær ástæður:
1. Enginn afísingarbúnaður er í flugvélinni.
2. Flugturninn á vellinum var lokaður, þannig að ef skyggnið yrði lélegt, gætum við þurft að lenda á öðrum flugvelli. Slíkar ráðagerðir myndu kalla á vesen í framhaldinu því bíllinn stæði þá enn á bílastæðinu við flugvöllinn sem lögðum upp frá.
Og þar að auki virtist sem tölvukeyrður lás inn á flugvallarsvæðið væri frosinn ... og því ekki nokkur leið að komast inn á vallarsvæðið.
Allt er þegar þrennt er ...
---
Við gerðum ekki mikið mál úr þessu heldur héldum bara heim á leið aftur ... keyptum kókosbollur af karli einum sem hefur í 30 ár selt slíkan varning á vegamótum rétt sunnan við Uppsala. Dágóð ending það!
Laugu fannst bollurnar sjúklega góðar og vildi helst klára þær allar strax ... u.þ.b. 15 stykki eða svo.
Dóttirin fékk líka að smakka og líkaði ágætlega.
---
Svo ræddum við Lauga málin ... ég vann svolítið, bæði í greininni sem ég skrifaði í gær fyrir Sumarhúsið og garðinn, en einnig í grein sem ég er að skrifa ásamt Sigrúnu Helgadóttur og á að birtast í næsta eintaki Náttúrufræðingsins, sem gefin verður út fljótlega.
****************************************
32. dagur í líkamsræt árið 2010
Fótboltinn stóð fyrir sínu (80 mínútur) ... útihlaupið sem átti að fara í morgun, bíður betri tíma.
Á morgun verður farið Friskis&Svettis - sennilega í einhvern tíma þar
***********************************
*******
7. dagur í ekki-kók-drykkju
Þvílíkt auðvelt ... ég er eiginlega ekki að skilja hvert vandamálið er með þetta kók. Það er svo innilega ekkert mál að hætta að drekka það ...
********
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.