29.1.2010 | 00:01
Fimmtudagur 28. janúar 2010
Búið að vera hörkuvinna í dag ... hef verið að vinna að verkefnum fyrir Aðalskipulag Eyja- og Miklaholtshrepps. Meiningin er að skila af sér uppkasti á morgun, þannig að nauðsynlegt er að vinna vel.
---
Ákvað að horfa samt á leikinn ... og verð að segja að þetta íslenska landslið er alveg gríðarlega sterkt. Leikurinn í dag var ekki einu sinni spennandi fannst mér.
Þessir "slæmu kaflar" sem oft hafa einkennt landsliðið sjást varla lengur ... þó svo að þeir hafi fyrir einskæran klaufaskap glutrað niður forskotinu bæði á móti Serbum og Austurríkismönnum. Það flokkast ekki undir "slæman kafla" eins og þeir voru í eina tíð ... þegar leikurinn hrundi gjörsamlega og á nokkrum mínútum náði andstæðingurinn að skora 5 - 7 mörk, án þess að fengist rönd við reist.
---
Annars hefur hugur minn mest verið hjá Jóni Þór vini mínum í dag, því útför Jóhannesar Bekk, fósturföðurs hans fór fram í Grafarvogskirkju. Samkvæmt Jóni voru líklega um 1000 manns viðstaddir ...
... í sjálfu sér kemur mér það ekki á óvart ...
Jón Þór og hans fólk hefur alveg ótrúlega hæfileika, já ótrúlega hæfileika, í því að laða að sér fólk. Þetta er einhver snilligáfa ...
---
Sjálfur hripaði ég niður nokkur orð um Jóa Bekk ... og voru þau birt í Mogganum í morgun. Ég ætla að ljúka þessari færslu með þeim orðum.
"Væntumþykja er voldugt tvíeggjað sverð, því um leið og hún getur fært ómetanlega gleði og ánægju, getur hún falið í sér sársauka sem engu er líkur. Þrátt fyrir það, dylst það engum að hver sá sem opnar hjarta sig og getur látið sér þykja vænt um aðra, er ríkur.
Að finna fyrir skilyrðislausri væntumþykju annarra er ein besta og mikilvægasta tilfinning sem nokkur manneskja getur fundið.
Jóhannes Bekk kom, sem fósturfaðir, snemma inn í líf Jóns Þórs, eins allra besta vinar míns. Eins og ótal dæmi eru um, er síður en svo sjálfsagt, að slík sambönd þróist á heillavænlegan hátt. Þetta samband bar gæfu til þess. Þeim þótti vænt hvorum um annan. Þeir deildu gleði og sorg, þeir studdu hvor annan í leik og starfi. Þeir mynduðu lið. Sambandið skipti þá báða miklu máli og veitti þeim ómælda gleði.
En nú er komið að leiðarlokum. Annar liðsfélaginn er fallinn eftir hetjulega baráttu. Hans skarð verður ekki fyllt. Sársaukinn er engu líkur.
Mig langar til að þakka Jóhannesi Bekk innilega fyrir fyrir þann kjark og manndóm, að láta sér þykja vænt um Jón Þór, minn góða og kæra vin, og vera honum styrk stoð í ölduróti lífsins."
Athugasemdir
elsku vinur - mátt til með að þakka þér líka hér fyrir fallega grein - það er ómetanlegt að eiga góða vini eins og þig á degi sem þessum :)
jón smali (IP-tala skráð) 29.1.2010 kl. 00:37
:)
Páll Jakob Líndal, 29.1.2010 kl. 22:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.