24.1.2010 | 22:19
Sunnudagur 24. janúar 2010
Ég er satt að segja alveg steinhissa hvað ég er fljótur að komast í form ... eftir aðeins nokkra daga í líkamsrækt, finn ég þvílíkan mun á mér.
Það eru sérstaklega taekwondo-æfingarnar sem eru að gera það gott ... enda fær maður að taka vel á því þar.
Reyndar steingleymdi ég taekwondo-æfingunni í dag ... helber aulagangur ... Lauga minnti mig á æfinguna fimm mínútum áður en hún átti að hefjast. Það er aðeins og stuttur fyrirvari ... því ég þarf að hjóla í 20 - 25 mínútur til að komast á æfinguna.
En með þessu áframhaldi verð ég kominn í hörkuform fljótlega ... sem er náttúrulega bara frábært!! Og það besta við þetta er að mér finnst líkamsræktin núna skemmtileg ... það hefur nú ekki alltaf verið þannig.
---
Var að koma heim úr fótbolta ... fínn tími og "touchið" er aðeins að komast aftur í lappirnar á mér. En betur má ef duga skal ...
---
Er búinn að verja deginum í skrif ... hef verið að skrifa um áhrif umhverfis sjúkrastofnana á líðan sjúklinga. Það er mjög fróðlegt viðfangsefni ... sem spítalayfirvöld á Íslandi hefðu nú gott af því að kynna sér, nú þegar nýja sjúkrahúsið við Hringbraut er í hönnunarferli.
---
Guddan er enn við sama heygarðshornið hvað varðar að setja mat í hárið á sér. Fæst ekki með nokkru móti til að hætta því. Tómatsósa og vínarpylsa fóru í hárið í hádeginu. Skrúbbun fór fram síðdegis ... ofurlítil jógúrt sett í hárið í kvöld.
Annars er það af fröken Houdini að frétta að hún hóf síðastliðinn mánudag að vera í leikskólanum frá kl. 9 til 16. Við héldum að það yrði kannski dálítið erfitt svona til að byrja með, en viti menn ... fröken Houdini hefur sjaldan verið betri. Líkar svona líka vel á leikskólanum ... og er sjaldgæflega skapgóð þegar heim er komið.
**********************
18. dagur í líkamsrækt árið 2010
Fótbolti í 90 mínútur ... góð keyrsla. Taekwondo-æfing gleymdist. Mínus í kladdann ...
Á morgun verður útihlaup 4 km.
*************************
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.