Miðvikudagur 6. janúar 2010 - þrettándinn

Jæja, ekki er maður neitt sérlega mikið af jafna sig af glórulausri ákvörðun forseta lýðveldisins í gær ... því meira sem ég hugsa um þetta því verri fyrst mér ákvörðunin vera.

---

Ég stend við spádóminn frá því í gær ... þó svo ekkert bendi til þess á þessari stundu að hann muni rætast.

Lauga lagði til að ég myndi í framtíðinni spá öfugt við það sem ég vonaði að gerðist ... það myndi örugglega gefa miklu betri raun ... að minnsta kosti fyrir mig sjálfan.

Þegar ég sagðist viss um að IceSave-samningurinn yrði samþykktur í þjóðaratkvæðagreiðslu, þ.e.a.s. ef áðurnefndur spádómur minn rætist ekki áður, bað hún mig í guðanna bænum að láta það vera að spá, nema ég ætlaði að setja allt á annan endann.

En það virðist nú vera að mesti móðurinn sé að renna af andstæðingum samningsins, alltént ef eitthvað er að marka skoðanakannanir ... samtímis falla stoðir "hins velígrundaða rökstuðnings" forsetans hver af annarri. 

Nóg um þetta ...

---

Það er einn aðili hér á heimilinu sem hefur litlar áhyggjur af IceSave og það er Sydney Houdini ... hún hefur miklu meiri áhyggjur af því að fá ekki að horfa nóg á Dodda.  Í gær fékk hún sendingu frá Íslandi, nánar tiltekið frá Öbbu móðursystur sinni.

Og hvað var í pakkanum?  Doddi - DVD diskur nr. 2!

Um dálítið langt skeið hefur dóttirin einungis viljað láta lesa bók um Dodda fyrir sig, áður en farið er að sofa.  Kannski ekki til frásagnar nema fyrir það að hún vill bara láta lesa tilteknar blaðsíður úr bókinni.  Af um 20 síðum eru ekki nema 6 - 8 síður sem hljóta náð fyrir augum þeirrar stuttu.  Svo blaðar hún ákveðið yfir þær blaðsíður sem ekki á að lesa.  Þegar bókin er á enda komin, er skundað á byrjunarreit á nýjan leik og farið fram á að nákvæmlega sömu blaðsíður verði lesnar aftur og aftur og aftur ...

Það er ekki alveg gott að átta sig á því hvað er að gerast í toppstykkinu ...

---

Hún sagði fínt orð í dag, eftir að hafa nýlokið við að sporðrenna vínberi: "Vínbe".

---

Það er líka fróðlegt að fara yfir hvað dýrin "segja".  Hún er alveg með á hreinu hvað ljón, tígrisdýr og fílar "segja", en lítið gengur að fá uppgefið hvaða hljóð bæði hundar og kettir gefa frá sér.

Svo kemur að hestinum og hann "segir" "gobiígobb", en það myndi nú tæplega teljast rétt svar á prófi ... en jæja ...
Því næst kemur kindinni.  Hún "segir" "mmmmm ... " án þess að "eeee-ið" fylgi í kjölfarið.  Kindin "segir" bara "mmmmm ...".  Gott og vel.
Þá er röðin komin að kúnni.  Hún "segir" líka "mmmmm ... " án frekari málalenginga. 

Kýr og kindur "segja" sem sagt það sama!

Það er búið að reyna að leiðrétta þetta í marga mánuði ... en það er bara ekki möguleiki að fá leiðréttinguna viðurkennda.

---

Annars gleymdist að í dag er þrettándinn ... heimagerðir hamborgarar voru í matinn.  Kemur sjálfsagt ekki á óvart eftir að matseðill nýjársdags var opinberaður fyrir nokkrum dögum. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

ju hljodin sem hundarnir gefa fra ser hja Gudrunu Helgu er "voffa" ;)

Lauga (IP-tala skráð) 7.1.2010 kl. 08:08

2 Smámynd: Páll Jakob Líndal

Stóri bróðir horfir yfir öxlina ... ;)

Páll Jakob Líndal, 7.1.2010 kl. 12:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband