5.1.2010 | 22:38
Þriðjudagur 5. janúar 2010 - Spádómar
Ég hef aldrei verið spámannlega vaxinn ... og það varð engin breyting þar á í dag. Þvert ofan á allar spár mínar um að forsetinn myndi undirrita IceSave-lögin, ákvað hann að gera það ekki.
En ég spyr bara ... hvað er þessi blessaði forseti okkar að hugsa??
---
Yfir morgunmatnum spáði ég í það, bara svona í einrúmi, að forsetinn ætlaði að segja af sér á blaðamannafundinum í morgun. Ég byggði það á þeirri staðreynd að fjölmiðlum var ekki kynnt efni fundarins þegar tilkynning var send út í gær.
Það þarf varla að ræða það að ég reyndist ekki sannspár í það skiptið.
---
En þrátt fyrir augljóst getuleysi mitt þegar spádómar eru annars vegar þá er ég hvergi hættur. Ég ætla að leggja fram nýja spá og hún er svona:
Það verður engin þjóðaratkvæðagreiðsla. Lögin verða afturkölluð og ný IceSave-lota byrjar, þegar og ef Bretar og Hollendingar eru tilbúnir til þess.
Þessa spá byggi ég á því að:
1. Ef þjóðin fellir samninginn þá samsvarar það því að spóla aftur um nokkra mánuði.
2. Ef þjóðin samþykkir samninginn, þá getur það komið okkur í erfiða stöðu síðar meir, t.d. ef til stæði að endurskoða samninganna að nokkrum árum liðnum. Ég þarf svo sem ekkert að úttala mig meira um þetta, enda aðrir betur til þess fallnir.
Ef spá mín gengur eftir hlyti það að teljast ásættanleg niðurstaða fyrir andstæðinga IceSave-laganna, því þeir væru þá búnir að ná sínu fram og heilmikill tími og peningar myndu sparast, auk þess sem tjónið yrði væntanlega minna.
Ég skal hundur heita ef þessi spádómur rætist ekki.
---
Það er hinsvegar spurning um hvort talsmenn beins lýðræðis yrðu sáttir við niðurstöðuna ef spá mín reyndist rétt.
En þar er bara verið að tala um allt annan hlut.
Persónulega er ég afar hlynntur beinu lýðræði í meira mæli en er nú. Að því sögðu er ég ekki hlynntur því að þetta mál fari í þann farveg, því hvernig sem færi yrði niðurstaðan sennilega verri fyrir Ísland heldur en ef Alþingi og forseti myndu einungis kvitta fyrir samþykkt. Þessi röksemdarfærsla er byggð á því að Alþingi hefur lagt á það mikla áherslu að ekki sé fyrir hendi lagaleg skylda af hálfu Íslands að greiða skuldina. Með meira en hálfa þjóðina samþykka lögunum gæti þessi mikla áhersla Alþingis útvatnast verulega.
---
Mér þætti gaman að vita hvað vakir fyrir mönnum sem telja stöðu Íslands svo sterka um þessar mundir að Bretar og Hollendingar séu líklegir til að semja við okkur á enn rýmilegri forsendum en nú hefur verið gert?
Er ekki kominn tími til að vakna?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.