Mánudagur 4. janúar 2010

Ég held að mál dagsins hér í Uppsala, sem og víðar, sé hvort forseti vor staðfesti IceSave-lögin eða ekki.  Jæja, það er nú kannski ofsagt að Uppsalabúar, svona almennt séð, bíði með öndina í hálsinum ... en allavegana ég og Lauga bíðum ...

Og ég spái því að hann skrifi undir ... tel ekki að honum sé stætt á öðru, sé litið til þeirra afleiðinga sem synjun getur haft í för með sér ...

Tek undir með Eiríki Bergmann í Kastljósinu að það er gjörsamlega út í hött að einn maður geti gripið fram fyrir hendur Alþingis sem er löglega kjörið. 
Þegar karlanginn hafnaði því að skrifa undir fjölmiðlalögin á sínum tíma, átti ég ekki til orð.  Ekki vegna þess að ég teljist eða hafi talist stuðningsmaður Davíðs Oddssonar eða þeirra aðferða sem hann var oft þekktur fyrir, heldur einungis vegna þess að mér finnst þetta ekki vera í verkahring forsetans að skera úr um hvort lög skuli samþykkt eða ekki.  Það er og á að vera verkefni þingsins.

Þetta gönuhlaup forsetans í þá átt að gera forsetaembættið að pólitískri stöðu er að mínu mati bara leikur að eldinum, og endar sjálfsagt með því að forsetaembættið verður lagt niður.  Yrðu það málalyktir þætti mér það mjög miður, enda hafa forsetar Íslands allt frá því ég man eftir mér, þó að undanskildum margrómuðum fíflagangi ÓRG síðastliðin ár, verið landinu til mikils sóma.

... annars ætla ekki að æra óstöðugan með að ræða þetta meira.

---

Sydney Houdini gerir það gott. 
Sýndi listir sínar með því að ganga út á hlið í kvöld.  Eitthvað nýtt þar á ferðinni.
Og þegar eigandi íbúðarinnar, hin tyrkneska Heval, kom í heimsókn til okkar í dag, skreið Syd umsvifalaust í fang hennar strax við komu hennar, kom sér þar hagalega fyrir, þverneitaði að yfirgefa staðinn þrátt fyrir hvatningu um það og grét úr sér augun þegar Heval fór.  Þetta gerðist þrátt fyrir að blessað barnið hafi aldrei á ævinni séð Heval áður.

Eðlilegt?

GHPL krafðist þess í gær að fá að fara í "gömlu" lakkskóna sína, sem eru nú taldir vera of litlir.  Ekki kom annað til greina en að reyna til þrautar að komast í skóna.  Með töluverðum átökum tókst að koma henni í annan skóinn og var þá búist við einhverju kveini.

Hvert á allar slíkar spár ... varð Guddan himinsæl gekk fram og aftur um íbúðina íklædd lakkskó á öðrum fæti.

Eðlilegt?

Ég er sannfærður um að þetta var síðasta ferðin hjá frökeninni í þessum skó ... því hvað sem hver segir, þá er þessi skór of lítill!!

Ég skrifaði um daginn að Benjamin Franklin sá ágæti maður, hefði eitt sinn látið hafa eftir sér eftirfarandi: "Early to bed and early to rise, makes one man healthy, wealthy and wise".

Lauga hefur tekið Franklin á orðinu og er sofnuð núna og ég er að fara að sofa sjálfur.  Við ætlum svo að vakna kl. 5 í fyrramálið og hefja þá daginn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband