Sunnudagur 3. janúar 2010

Ágætis dagur í dag ...

Guddan borðar eintómt smjör af mikilli lyst ... sýndi og sannaði í dag að ekkert jafnast á við væna smjörklípu í litla lófann ...

Í kvöldmat var enn einu sinni hangikjöt og uppstúf ... fer nú að styttast í að rúllan klárist ... ;)

---

Er að lesa góðar bækur þessa dagana ... Meiri hamingju eftir Tal Ben-Shahar, Borða, biðja, elska eftir Elizabeth Gilbert (reyndar lauk við hana í fyrradag) og The Psychology of Cycling eftir einhvern sem ég man ekki hvað heitir.

Allt saman mjög athyglisverðar bækur ... hver á sinn hátt ...

Las í dag að Meiri hamingja hefði selst vel fyrir jólin.  Því miður féll sá mikli snillingur Karl Ágúst Úlfsson, þýðandi bókarinnar, í þá gildru í viðtali við Vísi.is, ásamt hinum eina sanna Gillz, sem átti einnig söluháa bók fyrir jólin, að telja að "þjóðin sé í stuði fyrir svolítið léttmeti eftir þungavigtarumræður um ESB og Icesave í þjóðfélaginu".  Og þess vegna hafi þessar tvær bækur selst vel.

Það má vel vera að Mannasiðabók Gillz sé léttmeti og eflaust er hún það ... en sjálfum finnst mér alsendis óviðeigandi að tala um bókina Meiri hamingju í sömu andránni, því ég tel að sú lesning og sú vinna sem meiri hamingja krefst sé síður en svo léttmeti. 

Á bls. 95 í bókinni er t.d. spurningin: "Hvað er það sem þig langar virkilega mikið að gera?"  Þessi spurning kemur í kjölfar krefjandi lesningar um "sjálfsamkvæm markmið", en skv. bókinni eru slík markmið "þau sem við keppum að af djúpri persónulegri sannfæringu og/eða af miklum áhuga.  Samkvæmt Kennon Sheldon og Andrew Elliot eru þessi markmið "samgróin sjálfinu" og "eiga beinlínis upptök sín í sjálfsvali"" (bls. 90).

Hvað langar þig virkilega til að gera, lesandi góður, ef þú lítur til djúprar persónulegrar sannfæringar þinnar og/eða mikins áhuga þíns?

Í mínum huga er þetta ekki neitt sem ég get svarað fyrirhafnarlaust, þrátt fyrir að vera mikið búinn að spá og spekúlera í því hvað ég vil fá út úr þessu lífi.
Ég er með 110 markmið, skrifuð á lítil spjöld sem ég les yfir á hverjum degi ... ég held að markmiðin endurspegli það sem ég vil virkilega gera.  Hvort þau eru í samræmi við djúpa persónulega sannfæringu hef ég ekki hugmynd um ...

Enda láta Kennon Sheldon og Linda Houser-Marko "þess getið að það sé "erfitt verkefni" að velja sér sjálfkvæm markmið, sem bæði krefjist "hæfileika til sjálfsskilnings og getu til að standast félagslegan þrýsting sem gæti stundum ýtt manni í óheppilega átt"" (bls. 92). 

En ég er að vinna að því að komast að því hvort markmið mín eru sjálfsamkvæm eða ekki ...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband