Færsluflokkur: Bloggar
5.1.2011 | 23:21
Miðvikudagur 5. janúar 2011 - "Bystander effect"
Jæja, þá er blessuð móðir mín farin aftur af landi brott ... og nú kemur við svakaleg vinnutörn.
Sverrir félagi minn var svo ástsamlega almennilegur að bjóðast til að skutla móðurinni út á Arlanda-flugvöll ... og ekki nóg með það, þau hjónin, þ.e. Sverrir og Dana, útveguðu mér líka bíl þegar móðirin kom hingað til Svíþjóðar fyrir áramótin.
Þar að auki eru þau búin að bjóða okkur tvisvar heim um hátíðarnar og akstur báðar leiðir er að sjálfsögðu innifalinn.
Ég verð nú bara að segja að þetta eru rausnarskapur og liðlegheit í algjörum sérflokki ... svo sannarlega eitthvað fyrir mig til að læra.
---
Ég hef stundum spáð í það hvað ég er svona almennt séð, ótrúlega slappur í því að bjóða fram aðstoð mína og hjálp eða bara yfirleitt að bjóða fólkið eitthvað ... það er samt ekki að ég vilji það ekki ... ég bara einhvern veginn fatta það ekki.
Oftast finnst mér bara að fólk geti bara beðið ef það vantar eitthvað ... og ansi oft sneiði ég bara framhjá hlutunum, læt eins og ég taki ekki eftir og hugsa með mér að það hljóti bara einhver annar að redda málunum.
Þetta er oft mjög hallærislegt og alveg hrikalega lítið "twist" í þessu ... ef maður spáir í það.
---
Það er til merkilegt félagssálfræðilegt fyrirbæri, sem kallast "bystander effect" og fjallar um þegar fólk bíður ekki fram aðstoð sína þegar einhver er í nauðum staddur.
Í hverri einustu inngangsbók í almennri sálfræði má finna áhrifamikið dæmi um "bystander effect". Fjallar það um þegar ráðist var á Kitty Genovese nærri heimili hennar í Queens í New York-borg. Var þar að verki raðmorðingi og nauðgari, Winston Moseley að nafni. Meira en hálftími leið frá því Moseley fyrst réðst á Genovese og þar til hann var búin að ganga af henni dauðri.
Fjöldi fólks á að hafa orðið vitni að atburðinum en ekkert aðhafst.
---
Einn þáttur sem hefur mjög mikil áhrif á "bystander effect" er fjöldi vitna að tilteknum atburði en það er eins og fólk finni til minni ábyrgðar hjá sjálfu sér að grípa inn í eftir því sem fjöldinn er meiri.
Ábyrgðin einhvern veginn dreifist yfir á alla og hver og einn fær svo lítinn skerf að honum finnst ekki taka því að gera neitt í málunum og hugsar bara að einhver annar hljóti bara að gera eitthvað.
Mikið svakalega finn ég oft fyrir þessu ...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.1.2011 | 22:42
Mánudagur 3. janúar 2011 - Sitt af hverju
Jæja ... enn er skrafað hér í Svíþjóð ...
---
Guddan er nú farin að ganga á tám ... aldrei séð hana gera það fyrr.
Svo er hún líka farin að leggja aftur augun þegar hún er að reyna að sofna ... í stað þess að berjast á hæl og hnakka við að halda þeim opnum þar til Óli lokbrá tók yfirhöndina.
Hún gerði líka eitthvað stórmerkilegt í gær ... ég man bara ekki hvað það var ... en það var stórmerkilegt!
Það er líka gaman að segja frá því að svefninn hjá henni er í tómu tjóni þessa dagana. Hún er farin að vilja leggja sig milli kl. 16.30 - 17.30 og vaknar svo 1,5 - 2 tímum síðar. Þetta þýðir auðvitað að hún sofnar svo ekki aftur fyrr en upp úr miðnætti.
Það verður fróðlegt að sjá hversu langan tíma það tekur að vinda ofan af þessu ... en að sjálfsögðu hef ég pælt mikið í svefnmálum dótturinnar ... og ég er sannfærður um að svefnráðgjafar gæfu ekki mikið fyrir mínar meiningar í þeim málum ;) .
---
Svo er ég búinn að vinna baki brotnu í grein sem ég er að skrifa fyrir Djúpavogshrepp ... og fjallar um upplifun ferðamanna á Djúpavogi.
Þetta verkefni er mjög skemmtilegt ... og ég hlakka til að sjá niðurstöðuna.
Hér eru mæðgurnar að undirbúa svefninn
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.1.2011 | 23:49
Sunnudagur 2. janúar 2011 - Nýjar pælingar
Þessi dagur hefur verið miklu líkari hinum hefðbundna nýjársdegi en gærdagurinn.
Í gær þurfti ég nefnilega að verja mestum hluta dagsins í greinarskrif enda er ég algjörlega á lokasprettinum að skila inn vísindagreininni sem ég hef svo oft minnst á hér á þessu bloggi.
---
Í dag var meira verið að spjalla saman, skreppa út og njóta lífsins.
Umræðurnar voru á mjög skemmtilegum nótum. Þær voru um barnauppeldi en ég hef mikið verið að pæla í hvaða áhrif það hefur að börn séu með sérherbergi.
Margir leggja upp úr því að koma börnum sínum tiltölulega fljótt á æviskeiðinu upp á að sofa í sínu eigin herbergi.
Ég hef verið að afla mér upplýsinga um ástæður þessa, s.s. að yngri börn eigi auðveldara að með að tileinka sér slíkar breytingar, það sofi allir betur, börn geti frekar sofnað sjálf o.s.frv.
Út af fyrir sig get ég vel skilið þessi rök ...
... en ég er samt ekki alveg að kaupa þau ...
---
Ég var mörg ár í sveit á mínum yngri árum og hef því kynnst dýrum og atferli þeirra nokkuð vel.
Eitt af því sem er mjög augljóst þegar fylgst er með dýrum er hvað ungviðið leitar alltaf til móður þegar kemur að því hvílast. Það er sama hvort talað sé um kálfa, hvolpa, folöld, kettlinga eða lömb ... þegar kemur að því að hvílast þá leggjast afkvæmin, meðan ung eru, ævinlega eins nálægt mæðrum sínum og þau geta.
Það atferli virðist því með öðrum orðum vera harðvírað í þau frá náttúrunnar hendi ... þarna er öryggið nefnilega mest. Með þessum hætti má auka verulega líkurnar á að komast af í þessum heimi. Þetta er "púra" Darwin-ismi - survival of the fittest ...
Því má spyrja ... gildir ekki það sama um börn?
Ég held að það séu viðurkennd sannindi að ung börn vilja, frá náttúrunnar hendi, vera nálægt foreldrum sínum.
Má þá ekki leiða líkum að því að verið sé að skora þessar grunnþarfir á hólm með því að láta börn sofa í sérherbergi?
Hvaða afleiðingar hefur það?
Sjálfur veit ég það ekki ... en mér finnst stefna bara ekki "meika sens".
---
Ég hef svo tekið þessar pælingar mínar enn lengra og velt fyrir mér hvort þarna sé ekki hreinlega verið að reka fleyg milli fjölskyldumeðlima, því strangt til tekið á sér stað einhvers konar flokkun á fjölskyldumeðlimum; foreldrar í einu herbergi og börn í öðru herbergi.
Þennan fleyg er svo gjarnan haldið áfram að reka t.d. með því að hvetja börnin til að leika sér inni í herberginu sínu og jafnvel loka á eftir sér, gefa þeim tölvu sem höfð er inni í herberginu, nú eða sjónvarp ...
... en með þeim hætti má nokkurn veginn tryggja afar lítil samskipti milli barna og foreldra.
---
Þegar börnin eldast, skilja foreldrarnir svo ekkert í því hvað börnin hafa lítinn áhuga á að vera í kringum þá ... en skýra málið með þeim hætti að "svona sé þetta nú bara og hafi alltaf verið svona".
---
Fyrir nokkrum árum tók ég viðtöl við meira en 200 manns sem voru um áttrætt. Mjög margir sögðu börn sín hafa lítið samband.
Af hverju?
"Það hafa allir svo mikið að gera ... "
En er það málið?
Getur ekki bara verið að í gegnum tíðina hafi verið rekinn fleygur í samskiptin ... og hann skilji fólkið að?
Ég veit það ekki ...
... en allavegana finnst mér rökin fyrir að ung börn sofi í sérherbergi lykta allhressilega af hagsmunum foreldra ... hvað er gott og þægilegt fyrir þá.
Bloggar | Breytt 3.1.2011 kl. 09:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.1.2011 | 23:09
Nýjársdagur 2011 - Gleðilegt ár!!!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.12.2010 | 22:55
Fimmtudagur 30. desember 2010 - Að taka á móti gestum
Jæja ... þá er þetta ár alveg að líða undir lok ... bara um einn sólarhringur eftir.
Óhætt er að segja að þetta ár hafi liðið alveg svakalega hratt og margt skemmtilegt átt sér stað.
Það er líka gaman að sjá hvað margir hafa áhuga á því að fylgjast með þessari bloggsíðu minni en frá 30. desember í fyrra og þar til nú þegar þetta er skrifað, hafa meira en 6.230 gestir heimsótt síðuna. Auðvitað er það oft sama fólkið sem lítur við aftur og aftur en hver einstaklingur er þó aðeins talinn einu sinni hvern dag.
Það eru sum sé um 17 manns sem kíkja á síðuna á hverjum degi að meðaltali sem mér finnst bara alveg frábært. Það sem er svo frábært við allar þessar heimsóknir er það að fólk skuli bara yfir höfuð hafa áhuga á því sem við - þrenningin í Uppsala - erum að gera og hvað ég hef að segja.
Þegar ég fór til Sydney fyrir rúmum þremur árum, rann það nefnilega upp fyrir mér að það er síður en svo sjálfsagður hlutur að einhver sýni manni áhuga eða vilji eitthvað með mann hafa. Þegar öllu er á botninn hvolft er langsamlega flestu fólki algjörlega skítsama hvað snýr upp eða niður á manni ... :)
Ég þurfti sumsé að fara alla leiðina til Ástralíu til að átta mig á þessari einföldu staðreynd en fram að því hafði mér fundist fullkomlega sjálfsagt og eðlilegt að einhver slatti af fólki hefði áhuga á öllu sem ég segði og gerði.
---
Í dag var enn mikið spjallað en jafnframt mikið unnið ... þannig að þetta er búinn að vera langur dagur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.12.2010 | 23:35
Miðvikudagur 29. desember 2010 - Að losna við raddir
Rosalega fínn dagur að baki hér í Uppsala ... það er alveg merkilegt hvað dagarnir eru rosalega fínir þessa dagana.
Það er líka alveg merkilegt hvað við mamma getum talað mikið saman. Mér er það stórlega til efs að það séu mörg mæðgin sem geti talað svona klukkutímunum saman ... en þetta er skemmtilegt.
Fyrir vikið verður minna úr vinnu en efni standa til ... en ég held að það sé nú bara í lagi.
---
Svo hef ég líka verið að gera upp árið ... eitthvað smá verið að rúlla yfir bloggið til að sjá hvað hefur eiginlega á daga mína drifið.
Satt að segja held ég að mitt mesta afrek á þessu ári sé að ná tökum á hugsanaflæðinu hjá mér ... þessu endalausa, böggandi hugsanaflæði sem ég hef glímt við alltof lengi. Þessi rödd í hausnum sem var sífellt malandi, sífellt að setja út á allt sem ég gerði og sagði, sífellt að segja að ég gæti ekki þetta og hitt, sífellt að reka á eftir mér og valda samviskubiti.
Ég held að allir sem lesa þetta þekki þessa rödd hjá sjálfum sér ... en ég get sagt það ... það er þvílíkur munur að vera laus við þennan fjára.
Ég hvet því alla sem vettlingi geta valdið, að setja það efst á stefnuskránna hjá sér á nýju ári að þagga niður í þessari "f***ing" rödd.
---
Nú er það nýjasta hjá heimasætunni að vilja "búa sig upp" ... rosalegt stuð! Alveg merkilegt að hún skuli vera farin að hafa áhuga á þessu, ekki eldri en hún er ... þetta er greinilega eitthvað sem hún lærir á leikskólanum ... eða hvað?!? Ekki er nú verið að hafa þetta fyrir henni hér heima fyrir.
Þetta var lúkk kvöldsins ... útfært af henni sjálfri
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.12.2010 | 21:30
Þriðjudagur 28. desember 2010 - Það gerðist ekkert í dag
Þetta hefur verið alveg sérlega tíðindalaus dagur ...
Vinna, spjall og smávægilegir snúningar.
Það er mjög ljúft að upplifa svona daga við og við.
Nöfnurnar spjalla í kaffitímanum ...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.12.2010 | 23:08
Mánudagur 27. desember 2010 - Að fá gest í heimsókn
Í dag kom hingað til Uppsala góður gestur ... hvorki meira né minna en föðuramma Guddunnar.
Ætlar að dvelja hér í góðu yfirlæti framyfir áramótin.
- það hefur nú alveg gleymst að taka mynd af þeim stöllum í dag -
Guddan var svo glöð að hitta ömmu sína að hún hefur eiginlega ekki getað séð af henni í allan dag. Og meira að segja í kvöld átti amman að svæfa ... það gekk nú samt ekki betur en svo að Guddan steig fram í stofu um 20 mínútum síðar, hressari en nokkru sinni fyrr.
Þá var hún búin að þvæla svo mikið í ömmunni að sú fór bara beint að sofa en stubbur fór fram í eldhús og krafðist þess að fá eitthvað að borða.
Klukkan var þá 23.30 að staðartíma ...
---
Annars hefur þetta verið sannkallaður kjaftadagur ... ég og mamma töluðum saman svo klukkutímum skipti í dag ...
Lauga var að vinna ...
... og við rönkuðum ekki við okkur fyrr en klukkan rétt fyrir níu.
Kvöldmatur klukkan tíu ...
Þetta er allt í bulli hérna :) ... bara eins og það á að vera ...
Þessi var tekin á góðri stund í sumar ...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.12.2010 | 23:51
Annar í jólum 2010 - Geysilega góð jól
Við erum búin að hafa það alveg geysilega gott hérna í Uppsala þessa fyrstu daga jólanna.
Allt með hinu rólegasta móti ... en góð og hamingjurík samvera er það sem stendur upp úr öllu saman ...
Skruppum t.d. á snjóþotu í gær ...
Til að byrja með vildi Guddan helst að foreldrarnir væru bara á snjóþotunni og sjálf vildi hún horfa á. Svo rættist úr og loks var varla nokkur leið að fá hana til að hætta renneríinu. Þessu lauk þó með því að hún yfirgaf bara svæðið ...
Í dag var svo málningardagur ... síðuhaldari og Guddan máluðu baki brotnu meðan Lauga las í bók.
Í kvöld fórum við svo í alveg súperfínt jólaboð til Sverris og Dönu ... hrein snilld!!
Bloggar | Breytt 27.12.2010 kl. 00:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.12.2010 | 16:45
Aðfangadagur 2010 - Gleðileg jól!
Við þrenningin í Uppsala óskum öllum lesendum gleðilegra jóla!!
Og hafið það virkilega gott!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)