Færsluflokkur: Bloggar

Fyrsta bloggið árið 2016

Jæja, nú er aftur komið að því að ætla að blogga ... það er ekki annað hægt þegar maður býr með einum 4ra ára og einni 7 ára.

"Drífum okkur og hlaupum inn" hrópaði 4ra ára hetjan í gærkvöldi og hljóp umsvifalaust inn, þegar Guðrún Ósvífursdóttir sprengiterta hóf upp rausn sína. "Ég var ekkert hræddur bara orðinn þreyttur og vildi komast inn" var svarið þegar spurt var hvort hann hefði orðið hræddur. 

Í kvöld stendur til að sprengja svolítið en hetjan unga ætlar ekki að fara út og fylgjast með - hann ætlar ekki að fara út vegna þess að "það er bara hávaði". Í staðinn horfir hann út um gluggann.

Guðrún stóðst nú varla álagið að fylgjast með nöfnu sinni springa upp í loftið. Látbragðið var dálítið eins og væri verið að flýja sprengjuárás.

---

Annars blasir við nýtt ár sem vonandi verður heillaríkt fyrir sem flesta. Sjálfur ætla ég að leggja lóð mín á vogarskálirnar til að svo verði. 


Að byrja að blogga á nýjan leik

Ég er lengi búinn að ætla mér að byrja að blogga aftur - en tölvuleysi heima fyrir hefur háð mér. En nú er búið að bæta úr því.

Hlutirnir hafa tekið á sig aðra mynd en síðast þegar bloggaði, sem eðlilegt er þegar meira en 1,5 ár líður milli þess að fært sé inn á síðuna.

En Palli er búinn að vera veikur síðustu daga, og er orðinn dálítið súr yfir því. Það birtist helst í hundfúlum tilsvörum drengsins. Það var nú samt ekki annað hægt en að glotta út í annað í morgun.

Þá lá nafni í fleti sínu og vildi ekkert við mig tala, bauð alls ekki góðan daginn og svaraði engu. Guðrún sat með okkur ... 

 

Ekki varð meira úr þessari færslu ... sem skrifuð var 19. febrúar 2015 :/


Laugardagur 11. maí 2013 - Á námskeiði

Á fimmtudagskvöld og allan föstudaginn var ég á mjög skemmtilegu námskeiði hjá Dale Carnegie. Um var að ræða undirbúningsnámskeið fyrir þjálfaranámskeið sem ég mun sitja í næstu viku.

Þetta er geysilega áhugaverð fræði og alveg hrikalega krefjandi. Í næstu viku mun mæta ástralskur þjálfari en svo skemmtilega vill til að ég var hjá honum á DC-námskeiði í Sydney fyrir rúmum fjórum árum.

Þegar ég kvaddi hann þá gerði ég nú ekkert sérstaklega ráð fyrir því að hitta hann aftur en svona er heimurinn nú lítill - nú er hann mættur til Íslands og við samstarf okkar heldur áfram hérna hinum má hnettinum.

Síðari hluti þessa dags og alveg fram á nótt hefur farið í undirbúning fyrir mánudagstímann og það verður sá undirbúningur áfram á dagskránni á morgun. Þetta er alveg hellingur af efni og krefjandi námskeið þannig að það er klárt mál að það þarf að undirbúa sig vel.

Og af því að klukkan er næstum því þrjú að nóttu þá slæ ég botninn í þetta núna. 


Miðvikudagur 8. maí 2013 - Sumargleði

Svei mér ef sumarið er ekki að detta inn - það er nú líka eins gott, því í kvöld skal haldið í "Sumargleði". Þetta er víst alvöru partý - dresskód og tilheyrandi.

Það er svolítið gaman að upplifa sumarið detta inn svona snemma í Reykjavík - mig minnti einhvern veginn að það ætti að vera seinna á ferðinni. En minnið er eitthvað að svíkja mig ... ég hef ekki upplifað íslenskt vor síðan 2006. 

Bróðir og mágkona á Akureyri eru ekki alveg í sömu hugleiðingum ... þar er fagnað hverjum snjólausum klukkutíma. En það er einföld lausn við þessu hvimleiða snjóvandamáli ... sem er að færa sig sunnar á landið. 

Ég held að þetta sé eitthvert innhaldslausasta blogg sem ég hef skrifað en ég þori ekki annað en að fylla út í bloggkvótann vegna fjölda einlægra áskorana um að halda úti bloggsíðu. Hinsvegar er ég svo stressaður núna að ég nái ekki að komast í búð til að kaupa sumarföt fyrir "Sumargleðina" að mér dettur ekkert af viti í hug.  

 

Jú, hér er eitt sem verður að dokjumentera. Guðrún hefur lengi verið lin þegar kemur að því að borða eitthvað annað en ís og kex. Hún samþykkir aldrei ábót á diskinn ... fyrr en í gær ...

"Viltu meiri jógúrt?"

"Hmmmmmm ... hmmmmm ... hmmm ... já takk!"

Kraftaverkin gerast enn.

 

Sumarmynd í tilefni dagsins.

 

 


Mánudagur 6. maí 2013 - Best að byrja aftur

Jæja ... núna er ég búinn að fá svo margar fallegar beiðnir um að fara að blogga aftur að ég læt tilleiðast. Reyndar var síðasta beiðnin kannski ekki alveg með blíðasta móti þannig að nú bít ég í skjaldarrendur og tek á því. Annars gæti farið illa fyrir mér ... eftir því sem mér skilst. Alltaf gott að hafa góða hvatningu :) .

Það er náttúrulega óhemjumikið búið að gerast frá því ég átti afmæli og bloggaði síðast. Verst er að ég er svolítið búinn að gleyma flestu af því sem fréttnæmt er ... en jæja ...

---

Palli sonur minn breytist lítið hvað varðar eilífar neitanir - það er nánast sama að hverju hann er spurður, svarið er í 99,99% tilfella "nei".

Raunar er það svo slæmt að um daginn þá álpaðist drengurinn til að segja "já" og Guðrún vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið. "Hann sagði "já"", hrópaði hún glaðbeitt og hljóp til mín - já, það var svo sannarlega ástæða til að fagna. Ég er ekki frá því að hún hafi fengið aukaslag þegar hún heyrði "já"-ið - svo óvænt var það.

Palli getur þó sagt ýmislegt annað en "nei" - hann getur t.d. sagt "Vuvún" og á þá við systur sína Guðrúnu. Svo getur hann sagt "Lalla" og þá er hann að tala um sjálfan sig.

 

Guðrún er hinsvegar með hressasta móti - svona oftast nær. Hún vill helst alltaf vera að gera æfingar og nýlegir þættir á RÚV um Skólahreysti hafa verið sem olía á eld - núna hendir hún sér fyrirvaralaust í gólfið á öllum mögulegum og ómögulegum tímum og fer að gera armbeygjur. Það var nú ekki hægt annað en glotta útí annað þegar GHPL tók einn daginn upp á því að gera armbeygjur þannig að fæturnir voru uppi á stofuborðinu en hendurnar á gólfinu. Svo var byrjað. Skólahreysti. 

 

Jæja ... nú hljóta hlutirnir að fara að gerast á þessu bloggi. Læt þetta duga í bili. 


Föstudagur 14. desember 2012 - Afmæli!!

Afmæli hjá síðuhaldara í dag ....

... það skilja eftir kveöjur í athugasemdunum ...

 

Fékk ágæta afmæliskveðju frá dótturinni sem nú er stödd í góðu yfirlæti hjá ömmu sinni og afa á Sauðárkróki ásamt bróður sínum.

"Áttu afmæli í dag?"
"Já, ég á afmæli í dag!!"
"Æi, ég er orðin svo þreytt að tala" og svo lagði hún á.

Sem sagt mjög stutt :) . 

 

Bloggið fer bráðum í fullan gang aftur - komandi tímar eru því spennandi :) 


Mánudagur 3. desember 2012 - Farið frysta heldur betur

Í dag hefur hitastigið utandyra verið að hringla í svona -15 til -20°C. Veturinn í Uppsala er farinn að minna á sig.

Af því tilefni voru börnin færð í góð föt ... GHPL hoppaði ofan í nýjan samfesting sem hún fékk frá ömmu sinni og afa á Sauðárkróki. Var svo lukkuleg með hann að hún vildi helst ekki fara úr honum.

Nafni hinsvegar fetaði í fótspor systur sinnar og fékk bleiku lambhúshettuna utan um rauðu lambhúshettuna ...

 

Tiltektin og undirbúningur fyrir flutninginn hefur verið í algleymingi í dag.

Stubburinn fékk að horfa á video til að hægt væri að vinna. Fyrir valinu var - eins og alltaf - Bikar í Prúðuleikurunum eða "Mímí" eins og hann er kallaður á þessu heimili.

 

Svo færist dagskráin yfir í aðra þætti Prúðuleikaranna ... og svo kemur GHPL og tekur við dagskrástjórninni. Stundum kostar það læti en ef kveikt er á "Bleika pardusnum" þá geta báðir aðilar horft sáttir. 


Sunnudagur 2. desember 2012 - Að flytja í þriðja skiptið á einu ári

Jæja, þá er fyrsti í aðventu þetta árið senn á enda kominn. 


Garðurinn hjá okkur - sama sjónarhorn kl. 12 á hádegi og 12 að miðnætti.

Við erum svona u.þ.b. í nákvæmlega sömu verkefnum og fyrir ári síðan, já og í því sama og fyrir hálfu ári ... þ.e. að pakka niður við fyrir flutning. 

Að pakka niður og flytja á svona sex mánaða fresti heldur manni alveg við efnið. Og ekki spillir það fyrir þegar sonurinn er með gubbupest ... hann hefur reyndar verið góður í dag en sýndi góða takta í gærmorgun og var síðan slappur frameftir öllum degi. Mig minnir að í fyrra á sama tíma hafi hann gleypt í sig hlaupabólu ... gæti samt skeikað nokkrum dögum ...

Það er búið að grisja töluvert mikið. T.d. fóru tveir svartir ruslapokar af notuðum barnafötum í gám í dag. Ekki slæmt að sjá eftir þeim fatnaði til þeirra sem geta haft gagn af honum.
Meira dót fer í endurvinnsluna á morgun.

Kassarnir lokaðir og samansúrraðir með límbandi hlaðast upp og bíða þess að komast í gám til Íslands. Markmiðið er samt að halda tölu þeirra innan við tíu.
Illa gengur hinsvegar að losa sig við þrjá hluti sem við viljum selja. Eftirspurnin eftir Galant skrifborðinu frá IKEA er engin - jafnvel þó búið sé að slá meira en 50% af upprunalegu verði. Og borðið er sem nýtt. Sama með barnarúmið úr IKEA. Nánast ónotað því hvorugt barnið kærði sig um að sofa í því. Æpandi þögn. Barnastóll er það þriðja. Og ekkert að gerast.

Á morgun lýkur pökkuninni og húsið verður þrifið hátt og lágt. Þrif eru hafin, t.d. rúður, já og helvítis ofninn. Það er nú meiri Kleppsvinnan að fást við þau ósköp. Ég hefði betur sleppt því að láta ostinn alltaf bráðna niður á "ofngólfið".  


Mæðgurnar eftir að hafa borðað köku rétt fyrir klukkan 10 í kvöld. 


Fimmtudagur 29. nóvember 2012 - Margs konar ævintýri

Stjarna dagsins var GHPL sem dansaði á foreldradanssýningu í dansskólanum í dag. Gekk alveg ljómandi vel og Guddan skemmti sér greinilega mjög vel sem er sérlega ánægjulegt sérstaklega í ljósi þess að hún hefur lítið viljað taka þátt í danstímunum í vetur.

 

Í dag sá nafni minn líka snjó í fyrsta sinn, svona eftir að hann fékk eitthvað vit í kollinn sem mark takandi er á.

Viðbrögðin voru langt frá því að vera eitthvað rosaleg. Hann lét sér frekar lítið um finnast. Það var ólíkt því sem var þegar GHPL upplifði fyrst snjó eftir að vit var komið að einhverju marki í kollinn á henni. Það var 15. desember árið 2009. 

 

Fyrsti snjórinn setti strætósamgöngur svolítið úr skorðum, kannski bara eins og lög gera ráð fyrir.


Í sjöunni á Hugo Alfvéns väg. 

Og á leiðinni heim fékk maður aðeins að finna fyrir því og ballið hófst þegar bara tvær biðstöðvar voru eftir.

Þá ákvað ég að taka blað sem Palli var að lesa af honum til að pakka því niður í tösku. Hann situr í fangi móður sinnar þannig að ég þarf að standa upp til að ná blaðinu. Í miðri athöfn snarhemlar bílstjórinn og ég dett aftur fyrir mig og hyggst lenda aftur í sætinu. En því miður fyrir mig hafði ég setið í sæti þar sem setan fer sjálfkrafa upp þegar staðið er upp. Ég lenti því á gólfinu. 

Þessi snarhemlun var tilkomin af því að umferðaröngþveiti hafi orðið á nýja hringtorginu við Gottsunda Centrum. Strætó hafði runnið til í torginu og sat fastur. Upp úr því varð einhver sirkus þar sem allir flautuðu á alla.


Strætó í ógöngum.

Í miðri hringiðunni ákveður nafni minn að kasta upp og gerir það snyrtilega. Magainnvolsið fer að miklu leyti yfir GHPL sem situr fyrir framan hann, svolítið fer á hann sjálfan og talsvert yfir úlpuna hennar Laugu. GHPL bregst við með ástandinu með því að endurtaka í sífellu: "Úff, ælulyktin, úff, ælulyktin". Annars var engu líkara en henni fyndist bara nokkur upphefð í því að láta kasta upp yfir sig.

Einhver málamyndaþrifnaður hefst hjá okkur Laugu og um það leyti stoppar vagninn til að hleypa okkur út. Ég tilkynni bílstjóranum að strætóinn sé útataður í ælu, stekk svo til og gríp kerruna sem í sat GHPL og snara mér út. Dyrnar lokast og þá sé ég mér til skelfingar að bakpokinn minn er enn inni í vagninum. Næ að redda málnum.


Allir útbíaðir eftir strætóferðina. 

Þessi saga endar með því að Palli ælir í teppið í forstofunni. Hann er sennilega kominn með einhverja pest ... vonandi samt ekki :) .

Er einhvern veginn að vona að þetta séu bara eftirköst af 18 mánaða skoðuninni sem hann fór í í morgun. Þar var hann m.a. sprautaður í lærið við lítinn fögnuð. Annars kom hann bara mjög vel út úr öllu. Mældist 83 cm og 10,1 kg. Ásættanlegt. 

 
Í skoðun - staðan eftir að hafa fengið sprautu í lærið.


Miðvikudagur 28. nóvember 2012 - Bent og neitað

Annasamur dagur að kveldi kominn.

Skrapp um miðjan daginn á fund á leikskólanum hjá þeim PJPL og GHPL. Þar var töluvert spjallað og farið yfir það hvað á dagana hefur drifið frá því skólagangan hófst.

Hjá GHPL var full mappa af alls kyns dóti - hjá PJPL voru það tvö blöð :) . Skýrist kannski af lengd skólagöngunnar en PJPL gæti samt alveg fengið tvö blöð í viðbót. Það verður spennandi að sjá. 

En á öðru blaðinu sem PJPL fékk var saga af því þegar hann sat og benti á myndir. Við þá athöfn bankaði hann ítrekað með vísifingrinum á myndirnar og sagði "öh, öh, öh, öh", alveg þangað til hann fékk viðbrögð frá viðmælanda sínum.  Þetta var saga frá því í september.

Það merkilega í þessu er að ég var fyrst að taka eftir þessu háttarlagi hjá manninum núna nýverið. Hef greinilega verið með augun gjörsamlega lokuð. Miðað við söguna hefur samt orðið nokkur þróun hjá syninum því nú er ekki nóg að bregðast við bankinu. Það verður að bregðast rétt við bankinu annars er bara haldið áfram að banka og segja "öh, öh, öh, öh". 

 

Það er óhætt að segja að drengurinn sé nákvæmur!  


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband