Þriðjudagur 27. nóvember 2012 - Mát

Í kvöld er ég alveg mát!

Mánudagur 26. nóvember 2012 - Ferð til Riga

Jæja ... þá er maður reynslunni ríkari eftir að skroppið yfir Eystrasaltið og tekið stöðuna í Riga í Lettlandi. 

Þetta var fín ferð - sigldum með Tallink Silja Romantika og til baka með Festival. Í Riga er margt merkilegt að sjá. Margt gamalt og sumt nýtt. Sumt úr sér gengið, annað ekki og enn annað í mjög góðu ástandi.

T.d. þessi bygging - House of the Blackheads (Melngalvju nams) sem var jöfnuð við jörðu í síðari heimstyrjöldinni en endurbyggð. 

Freedom-minnismerkið er líka stórglæsilegt.

 

... svo var líka leikið sér ...

 

---

Börnin tóku sig afskaplega vel út í ferðinni ... og gullkorn féllu ...

Nei-maðurinn ógurlegi fór hamförum í ferðinni og neitaði u.þ.b. öllu sem hann var spurður um. Þráðist við þegar hann var settur í kerruna, lét fara í taugarnar á sér ef hann fékk ekki þau svör sem hann óskaði eftir og lét GHPL heyra það ef honum mislíkaði við hana.

Allt var þetta gert með einu litlu þriggja stafa orði: NEI!

Annars var hann afar skemmtilegur í ferðinni, hress og áhugasamur ... já og töluvert þreyttur á köflum. Vildi helst alltaf sofa af sér matartímana ... einkennileg árátta það.

Á heimleiðinni fékk stefndi í gott deit hjá okkar manni, þegar hann hitti stelpu á svipuðum aldri sem vildi dansa við hann ... 

 

---

GHPL stóð líka vaktina með mikilli prýði ... 

Eitt helsta umhugsunar- og umræðuefnið af hennar hálfu voru löggur og bófar.
"Af hverju eru bófar?" var spurning sem mjög oft hljómaði í ferðinni.
"Þetta er bófi" var fullyrðing sem mjög oft hljómaði í ferðinni.
"Þarna er löggubíll!!!!" heyrðist líka mjög oft.

"Löggan er komin til að taka bófana og setja þá í fangelsi ... og Spiderman og Súperman og Batman eru að hjálpa löggunni því þeir eru góðir. En af hverju eru bófar?".

Þetta er alveg frábærar vangaveltur, sem ég reikna með að hafi náð algjöru hámarki í þessari ferð.

 

GHPL hefur líka verið mikið í því að leika litla barnið bróður sinn. Okkur Laugu finnst þetta ekkert sérstaklega skemmtilegt og hvetjum hana eindregið til þess að vera bara hún sjálf.

Á pizzustaðnum "illy" var fór hún hamförum í hlutverki "litla barnsins". Gekk um staðinn, sagði "vakvakvak ... " og vildi endilega vera að þykjast sleikja einhverja skopparakringlu sem þarna var.

"Guðrún mín" sagði mamma hennar "okkur finnst svo miklu skemmtilegra þegar þú ert bara stór stelpa".

Þá rak GHPL upp stór augu, "já ... en mamma ... ég, ég, ég er ekki litla barnið ... ég er Andrés Önd!!"

Þegar betur var rýnt í leikinn mátti jú alveg sjá takta og heyra frasa sem fylgja Drésa. Þetta var fullkomið ippon!! 


GHPL með skopparakringluna hlustar á fyrirlestur um að skopparakringlan sé skítug og öll útbíuð í bakteríum. 

---

GHPL tók að sér mjög vandasamt hlutverk í borðsal skipsins en það var að færa barnastól að borðinu. Hún stillti honum upp við enda borðsins en bróðir hennar vildi ekki setjast í stólinn. Hann var þeim mun ákafari að setjast í hefðbundinn stól.
Þá greip GHPL til sinna ráða: "Nei, nei, nei, litli bróðir ... þú mátt ekki sitja í þessum fullorðinsstól ... þú átt að sitja í þessum" og benti á barnastólinn "þú ert ekki Guðrún!!!


Í klefa 4325 í M/S Romantika á leið til Riga. 

 


Fimmtudagur 22. nóvember 2012 - Sushi, dans og "damm"

Það er alveg stórmerkilegt hversu mikið æði maður getur fengið fyrir tilteknum mat, og sérstaklega er það merkilegt í þeim tilfellum þar sem manni fannst áður sami matur hreinn viðbjóður.

Þegar ég útskrifaðist úr sálfræði frá HÍ var veisla heima. Lauga útskrifaðist þennan sama dag úr hjúkrunarfræði og Nikki frændi úr verkfræði. Þannig að það var þreföld útskriftarveisla með yfirskriftinni "Þrjú undir sama þaki". Sumir misskildu þetta slogan hressilega, en samt alveg skiljanlega, og héldu að Lauga væri ólétt ... en jæja, svo var nú ekki.

En í þessari veislu smakkaði ég svona sushi-maki í fyrsta skipti. Hafði alls enga hugmynd um hvað þetta var þegar ég tróð heilum bita upp í mig. Ég hélt að ögurstund væri runnin upp. Í miðjum samræðum við einhvern sem ég man ekki hver var, braust þetta magnaða "maki-bragð" fram, sem minnti helst á saltað þurrhey. Ég náði með undraverðum hætti að halda andlitinu ... en hét því álíka viðbjóður færi aldrei inn fyrir mínar varir aftur.

Það hélst í 5 ár. Í Sydney, juðaði Lauga svo í mér að ég prófaði aftur. Viðbjóður.

Þrjú ár liðu. Tilboð dagsins hjá sushi-staðnum í Gottsunda Centrum í Uppsala inniheldur 4 maki bita, og 6 bita með laxi, rækju, avocato og tofu.

Til að gera langa sögu stutta. Ég hugsa um sushi á hverjum degi. Þrátt fyrir ágæt viðskiptatengsl við staðinn í Centruminu er best að fá sér "haltu-kjafti"-sushi frá staðnum í Sommarro. Tekur ekki nema 40 mínútur á hjóli að skjótast eftir slíku.

Geri það hiklaust.

Þetta er svolítið svipað og með grænu ólífurnar hérna um árið. 

---

"Mamma, ég dansaði allan tímann!!" Guddan kom hlaupandi út úr danstímanum í dag og faðmaði mömmu sína.
PJPL kom svo skundandi á eftir og faðmaði systurina. Mikil gleði.

Ekki síst vegna þess að loksins í næstsíðasta tíma annarinnar fæst GHPL til að taka þátt í tímanum. Hinir tímarnir hafa bara verið eitthvert djók.

---

Nei-maðurinn mikli á heimilinu segir ekki bara "nei" þó kannski hefði mátt lesa það út úr færslu gærdagsins.
Hann segir líka "damm". Það þýðir "fram" eða "þarna".
Svo kallar hann allt kvikt "mamma". GHPL á ekki til orð þegar hann bendir á hana og segir "mamma". "Neeeeiii, ég er ekki mamma. Ég er Gurún". Hún getur ekki sagt Guðrún.

---

Þó svo "ekki-nei"-aðferðin sé nú ekki að skila mjög sannfærandi árangri, er alveg ljóst að aðferðin við að koma lýsi ofan í börnin er skotheld.

Ég ætla að leyfa mér að segja að ég sé mjög góður í því að láta börnum líka við lýsi. Fullt hús þar.

Jafnvel svo að PJPL upplifir hápunkt dagsins á milli 8 og 1/2 9 á hverjum morgni þegar hann hesthúsar hálfri teskeið af lýsi, skömmu eftir að hann hefur sporðrennt fimm dropum af D-vítamíni.

"Ís" kallast lýsið hjá þeim stutta.  Svo skemmtilega vill til að hann notar sama orðið yfir annað uppáhald, hinn raunverulega "ís".

 


Miðvikudagur 21. nóvember 2012 - Nei-börn og vegalengdir

"Pabbi, batteríð er búið", sagði GHPL við mig í kvöld um leið og hún rétti mér kúlupenna sem orðinn var bleklaus. Ekki slæm nálgun það.

Þegar GHPL var töluvert yngri en hún er núna, tókum við Lauga þá ákvörðun að takmarka mjög notkunina á orðinu "nei" í samskiptum við dótturina. Þess í stað var stefnan að beina athygli hennar að öðrum hlutum eða hreinlega nota bara önnur orð.

Niðurstaðan var sú að úr varð eitthvert mesta "nei"-barn sögunnar.

Þrátt fyrir það héldum við uppteknum hætti við PJPL. Beina athyglinni að öðrum hlutum eða nota önnur orð en "nei".
Niðurstaðan er sú að á heimilinu er mesta "nei"-barn sögunnar. Blessaður pilturinn segir bókstaflega "nei" við öllu.

Ég er samt ekki sannfærður um að þessi aðferð virki ekki - sem er út af fyrir sig svolítið skrýtið. 

---

Allt frá því við fluttum af Johannesbäcksgötunni fyrir rétt tæpu ári höfum við notast við strætó til að koma blessuðum börnunum á leikskólann. Enda eru strætósamgöngur nokkuð góðar hér í Uppsala.

Því miður getum við þó ekki tekið þann strætó sem stoppar næst okkur, því það myndi kosta skiptingu niður í bæ sem ég nenni ekki að standa í. Við tökum því strætóinn sem stoppar næstnæst okkur. Og það kallar á pínulítið rölt af okkar hálfu.

Ég ákvað í gær að kanna hversu langt þetta rölt okkar út á strætóstoppistöð væri og komst að þeirri niðurstöðu að vegalengdin væri einir 750 metrar. Svo kannaði ég líka vegalengdina milli stoppistöðvarinnar þar við yfirgefum strætóinn og leikskólans. Hún er 650 metrar.

Niðurstaðan er því sú að auk þess að sitja um 45 mínútur í strætó, gengur GHPL um 1400 metra á hverjum morgni.
Ég veit ekki alveg hvernig málum er háttað á leiðinni heim úr leikskólanum en þar held ég að GHPL sníki sér stundum far í kerru bróður síns. Þá er aðferðin sú að hún situr með bróðurinn í fanginu.

 


Mánudagur 19. nóvember 2012 - Um fórnfýsi

Í kvöld ræddum við Lauga um fólk sem stundar þá iðju að vera "sífellt að fórna sér fyrir aðra" eins og það kallast. "Að láta sjálft sig mæta afgangi" mætti líka kalla það. Sem er merkilegt fyrirbæri.

Ég lagði einu sinni land undir fót við annan mann. Ferðin lá austur á firði og því var um nokkurn veg að fara. Þar sem mér finnst ákaflega gaman að spjalla við fólk, leið ekki á löngu að ég tók að fitja upp á einhverjum umræðum.  
Undirtektirnar voru hinsvegar í dræmara lagi og svo fór í Mýrdalnum að ég hætti bara alveg að fá svör. Ég beið í smástund, bara til að sjá hvort samferðamaður minn myndi hefja umræðuna á nýjan leik enda þekktur fyrir flest annað en að þegja tímunum saman.
En það gerðist bara ekkert, þannig að ég fór að ganga á hann með þetta. Með töluverðri ýtni tókst mér að kreista það upp úr að viðkomandi gæti eiginlega ekki talað vegna æðisgenginnar tannpínu, sem hefði hrjáð hann í tvo, þrjá daga. 

Og af hverju hafði hann ekki látið mig vita? Jú, af því að hann vildi ekki að ég hefði áhyggjur. 
Af hverju fór hann ekki til tannlæknis áður en við lögðum af stað? Jú, af því hann vildi ekki riðla prógramminu sem hafði verið löngu ákveðið, vitandi að ég hefði takmarkaðan tíma.

Eitthvað vit í þessu? Nei. Algjörlega ekki ... þarna var maður sumsé staddur á miðjum Mýrdalssandi seint að kvöldi með manneskju sem vissi ekki sitt rjúkandi ráð vegna tannpínu. Og það var ekki eins og maður væri eitthvað á leiðinni inn á tannlæknastofu á næstu dögum.

... og allt vegna þess að það er verið að "fórna sér fyrir aðra".

Vissulega er göfugt að brjóta odd af oflæti sínu öðru hverju, gera fleira en gott þykir og líta af eigin nafla ... en þegar slíkt er farið að valda vanlíðan og farið að gera meira slæmt en gott, er allt eins gott að staldra aðeins við og athuga hvort "fórnfýsin" sé ekki farin að bíta allsvakalega í skottið á sér.

Að vera staddur víðsfjarri tannlæknastofu á sama tíma og "fórnfús" samferðamaður manns er illa þjáður af tannpínu er langt frá því að vera góð skemmtun - fyrir hvorugan.


Fimmtudagur 15. nóvember 2012 - Af tannburstun og kerru

Lauga var að aðstoða GHPL við tannburstun í kvöld. Áður hafði ég boðið upp á slíkt en það var með öllu afþakkað. Lauga spurði því GHPL hverju þetta sætti.

"Pabbi er svo sterkur og svo vitlaus" var svarið.

Þetta finnst Laugu besta svar sem hún hefur heyrt frá GHPL.

---

Það vantar nú ekki tiktúrurnar í hann nafna minn. Það er alveg ótrúlegt hvað 1,5 ára gamall maður getur haft miklar skoðanir á hlutunum.

Þetta á sérstaklega við um sokka og sokkabuxur. Það má ekki vera ein minnsta misfella á sokkunum öðruvísi en þakið ætli af kofanum. Sokkarnir verða að vera vel, hvað segir maður eiginlega(!??) ... þeir verða að vera afar vel færðir upp á fótinn og allir teygðir og togaðir, helst upp að hnjám ... annars er fjandinn bara laus.

--- 

Og svo er það kerran ... GHPL fékk dúkkukerru frá ömmu sinni fyrir alllöngu síðan. Hún greip í hana öðru hverju en ekki mikið meira en það. En núna er öldin önnur ... því bleika Baby-born kerran er vinsælasta leiktæki heimilisins. PJPL heldur þétt um haldföngin og þeysist með hana fram í eldhús, inn í stofu, fram í anddyri, eftir ganginum og inn í vinnuherbergi til mín. Þar er snúið við, horfst í augu við mig í stutta stund, svo er sendur fingurkoss og þotið af stað aftur. Með tilheyrandi látum. 


Miðvikudagur 14. nóvember 2012 - PJPL hálf-rotaður

Jæja ... þrátt fyrir fögur fyrirheit hefur mér reynst afar erfitt að koma þessu bloggi aftur í gang en í ljósi þess að nú eru dagar okkar hér í Svíþjóð senn taldir er ekki úr vegi að taka sig taki.

---

Þessi blogglota byrjar á frásögn af glæsilegri frammistöðu sonar míns fyrir hádegi eða svona um það leyti sem ég var að komast á kontórinn minn eftir að hafa skilað af mér börnunum á leikskólann.

Lauga hringir og tilkynnir mér að nafni hafi dottið ofan af stól og beint á hnakkann. Kannski ekki í frásögur færandi, þannig séð nema hvað hann fölnar allískyggilega í kjölfarið og fer svo að kasta upp. Kennaranum hans, með alla sína áratuga starfsreynslu, leist þá ekki á blikuna enda að eigin sögn aldrei upplifað þetta fyrir.

Viðbragðsáætlunin var sett í gang - sennilega sú hægvirkasta sem til er. En svo fór á endanum að Lauga fór úr vinnu og náði í kappann á leikskólann. Á meðan ég kom mér niður á spítala. Við hittumst svo á bráðamóttöku barna og var stubburinn nokkuð vankaður.  

Rannsókn, röntgenmyndataka og bið leiddu svo í ljós að drengurinn var óskaddaður eftir þessi ósköp. 
Þvílíkur léttir það ... og guðs blessun.

---

GHPL tók þessum tíðindum mjög alvarlega þegar ég náði í hana á leikskólann. "Ég ætla að kyssa hann á ennið", sagði hún alvarleg í bragði.

Þegar við hittum Laugu og PJPL á Stóra Torginu rétt fyrir kl. 17 urðu miklir fagnaðarfundir og kyssti GHPL bróður sinn eins og hún hafði áður lýst yfir að hún myndi gera en þó ekki á ennið heldur á hnakkann. 

Svo fórum við og fengum okkur köku til að fagna góðum rannsóknarniðurstöðum. 

Í kvöld fengu systkinin að horfa á video enda má nú varla minna vera eftir svona ævintýri. GHPL réð dagskránni að mestu og fyrir valinu urðu teiknimyndir með Spiderman og Batman ... það er það nýjasta á þessum bænum ... ásamt því að spila tölvuspil á YouTube (?!?) . 


Þriðjudagur 2. október 2012 - Power posing & rútína

Við Lauga horfðum á ansi merkilegan fyrirlestur í gær á TED.com. Hann fjallaði um líkamstjáningu og hvernig maður hægt er að auka útgeislun sína og sjálfsöryggi með því að gera svokallaða "power posing" ("kraftstöðu") í tvær mínútur áður en maður tekst á við einhverja áskorun. 

Samkvæmt rannsóknum á þetta að virka :) .

Hvað er "power posing"? Jú, það er líkamsstaða sem sýnir sjálfan þig sem sigurvegara og þann sem valdið hefur. Þetta er galopin líkamsstaða þar sem maður stendur svolítið gleiður, er beinn í baki og setur hendur á mjaðmir.

Þetta var mjög áhugavert ...

---

Annars hefur dagurinn farið í skriftir eins og stundum áður ... áfram skal haldið með þriðju rannsóknargreinina, já og fyrirlesturinn sem ég á að halda hjá Landvernd um miðjan mánuðinn.

Börnin koma kúguppgefin heim af leikskólanum upp úr kl. 18 á hverjum degi - óhætt að segja að þetta séu nokkuð langir dagar. Svolítið fyndið hvernig sama rútínan fer eilíflega í gang þegar heim er komið. Sérstaklega hjá Stubbanum.

- Er mjög hress í byrjun, hleypur um og hamast.
- Svo fer að renna af honum mesti móðurinn þegar matartíminn nálgast.
- Í matartímanum situr hann í svona 5 mínútur í stólnum sínum og heimtar hann að fá að stíga upp úr stólnum.
- Strax og upp úr stólnum er komið þá byrjar mesta brölt í heimi, þar sem ferðast er kringum matarborðið án þess að nokkur pása sé tekin.
- Um leið og matartímanum lýkur, þá er hann orðinn alveg passlegur í háttinn og steinrotast á augabragði.

Læt þetta duga í bili ... það tekur svolítinn tíma að skrúfa sig upp í blogg-gírinn á nýjan leik. 


Mánudagur 1. október 2012 - Á fullum gangi

Síðustu vikur hafa nú verið heldur betur tileinkaðar skrifum á doktorsverkefninu mínu.  Þetta mjatlast áfram hægt og bítandi ... átti reyndar að vera komið í höfn í gær miðað við planið mitt en svo verður nú ekki. Það er ljóst úr þessu.

Þá er ekkert annað en að setja sér nýtt plan og það hefur nú þegar verið gert.

Því ber náttúrulega sérstaklega að fagna að í síðustu viku var fyrsta rannsóknargreinin mín samþykkt til birtingar í Journal of Environmental Psychology. Loksins, loksins ... 

Önnur greinin mín er komin aftur í hús frá tímaritinu Urban Forestry & Urban Greening og bíður þess að hægt verið að sinna þeim athugasemdum sem við hana hafa verið gerðar.

Þriðja greinin er í smíðum ásamt doktorsritgerðinni sjálfri ...

... það er því í nokkur horn að líta.

En nóg um þetta.

---

Hér á heimilinu er allt að gerast, GHPL er búin að taka stóran og góðan kipp ... svona skilningskipp, þannig að núna er hægt að tala við hana af töluverðu viti.

Hún er t.d. viljug til að fara í buxur á morgnana, ekkert mál að busta tennurnar og greiða hárið. Mikil framför þar.

Sonurinn er líka búinn að taka töluverðan kipp ... en berst um á hæl og hnakka til að losna við tannburstun, finnst afar gott að láta greiða sér og er að verða býsna matvandur.

Þannig að hér er allt eins og það á að vera.

---

Á komandi dögum og vikum verður tekin góð lota á þessu bloggi ... þannig að ... ;)  


Mánudagur 10. september 2012 - Nokkrir molar

Núna eru eiginlega doktorsverkefnis-skrif búin að taka yfir allt hjá mér, að minnsta kosti þann tíma sem ég kýs að verja fyrir framan tölvuna. Slíkt skýrir örugglega mjög stopular færslur.

En núna finnst ég bara verða að koma nokkrum línum á "blað".

GHPL er búin að eiga marga góða spretti nýverið - t.d. sagði hún í dag að hún hefði keypt "svartlauk" en átti þá að sjálfsögðu við hinn velþekkta hvítlauk.

Hún tók líka upp á því í morgun þegar við settumst í strætóinn að setjast við hlið eldri konu sem þar var. Þær urðu hinir mestu mátar, sátu og héldust hönd í hönd meðan vagninn ók sem leið lá frá Gottsunda niður á Stora Torget. Kostuleg að fylgjast með þessu.

Svo hefur hún komið mér laglega á óvart með því að rifja upp löngu liðin atvik. Um daginn ókum við framhjá Slottsbacken og þá rifjaði GHPL upp söguna af því þegar bróðir hennar missti skóinn sinn þegar verið var að hlaupa í strætóinn. Hún sjálf kom auga á skómissinn og lét vita þannig að skórinn tapaðist ekki. Þetta gerðist svona um það bil fyrir 5 mánuðum.

Eftirfarandi samtal fór fram fyrir ekki fyrir löngu, þar sem við sátum í strætó og ókum framhjá Vaksalatorgi.
"Ég dansaði einu sinni í þessu húsi" sagði GHPL og benti á Vaksalaskólann.
"Nú? Hvenær?"
"Ég dansaði þarna" endurtók hún og benti áfram.
"Dansaðir þú?"
"Já."
"Hvenær fórstu þarna inn?"
"Í gær. Dansa með krökkunum."
"Í gær? Fórstu þarna með leikskólanum?"
"Nei. Dansa."
"Ha?"
"Það var könguló í djúsnum."
"Nú?" (þögn) "Já, þú ert að meina Hrekkjavöku-ballið?"
"Já."
"Þegar við fórum að dansa og Sverrir, Dana og Jóndi voru líka?"
"Já." 
"Manstu það?"
"Já."

Þetta hrekkjavökuball var haldið í 29. október í fyrra.


Á Hrekkjavökuballi 

Þessi börn eru ótrúleg og ég verð bara að viðurkenna að mér hafði ekki dottið í hug að þau myndu svona langt aftur á þessum aldri. 

Svo í vikunni rifjaði hún upp þegar ég henti til hennar og Laugu fernu af eplasafa niður af svölunum á Johannesbäcksgötunni. Alveg örugglega hátt í ár síðan það gerðist. 


GHPL borðar steiktan lauk út á skyr - hún sagði að það væri mjög gott og því til staðfestingar kláraði hún allt af disknum ... þá hlýtur það að hafa bragðast ágætlega. 

Svo er það gaukurinn ... núna er aðalmálið að flengjast um með bleika dúkkukerru. 

Hann er yfirleitt afarhress en þó hefur hann aðeins tekið upp á því síðastliðna daga að vera afspyrnugeðstirður um kvöldmatarleytið.
Sjálfsagt er karlpúta orðin dauðþreytt þá en þetta er alveg kostulegt ... verður svolítið eins og gamall fúll karl. 


Hérna situr hann og borðar popp í Stadsträdgården og fylgist með móður sinni gera þetta ...

... og systur sinni gera þetta ...

Þessar myndir voru teknar á Menningarnótt í Uppsala núna um helgina ...

... svo var líka aðeins tekið á því í garðinum ... ég veit ekki hvað varð um hluta af hárinu á mér á þessari mynd.
Ef þessi "hárlubbi" er staðreynd - þá lýgur spegillinn hressilega að mér :) ...

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband